2 – 6 tíma ferð á sjúkrahús – ráðherra afboðaði komu sína vegna ófærðar
Heilbrigðisráðherra boðaði forföll á fund á Blönduósi í gær sökum ófærðar. Á sama tíma búa íbúar á Norðurlandi vestra við skerta heilbrigðisþjónustu sem mun skerðast enn meir um áramót. Til dæmis er engin fæðingadeild á Norðurlandi vestra en við aðstæður eins og í gær var stysti tími á sjúkrahús í þessu tilviki til Akureyrar þetta 2 – 6 tímar. Á Sauðárkróki fengust þær upplýsingar að sjúkrabíll væri á venjulegum degi rúman klukkutíma og upp í klukkutíma og tuttugu mínútur á leið til Akureyrar en það færi eftir hversu aðkallandi flutningurinn væri. Í veðri eins og í gær var sjúkrabíll á leið frá Akureyri 2,5 klukkutíma á leiðinniÁ Blönduósi fengust þær upplýsingar að ef fara þyrfti til Reykjavíkur með Holtavörðuheiðina lokaða þyrfti að fara Laxárdalsheiði en þá þarf Brattabrekka að vera opin. Það ferðalag lengir ferðina til Reykjavíkur um 1,5 – 2 klukkustundir. Alls gæti ferðalagið til Reykjavíkur á sjúkrahús því tekið 4 – 6 klukkustundir. Til Akureyrar gæti ferðalagið tekið upp undir þrjár klukkustundir. Á Hvammstanga er á fullum forgangsakstri hægt að ná til Reykjavíkur á einum og hálfum tíma. Í gær var ófært yfir Holtavörðuheiði og þá er nokk sama hvort farið er yfir Laxárdalsheiði og Bröttubrekku sé hún fær eða til Akureyrar. Ferðalagið mun því taka miðað við blindhríð og erfiðar aðstæður eins og var í gær 3,5 – 4 jafnvel fimm klukkustundir enda yfir marga fjallvegi að fara. Tekið skal fram að erfitt að er meta tímalengd þar sem vont veður og vont veður er ekki það sama. |