Á fæðingardeildina eftir leik
Eftir mikinn spennuleik Tindastóls og KR í bikarnum í gærkvöldi á Sauðárkróki, renndi Helgi Rafn Viggósson leikmaður Tindastóls til Akureyrar með sambýliskonu sína þar sem hún ól honum dreng um klukkan 4 í nótt.
Helgi segir að öllum líði vel og mikil hamingja sé á bænum, drengurinn sé myndarlegur enda líkur móður sinni, Hrafnhildi Guðnadóttur, Rabbý. Mældist hann 15 merkur að þyngd og 53cm á lengd. Helgi segist hafa beðið Rabbý að halda í sér þangað til eftir leik og hún hafi hlustað á hann í þetta skiptið.
Leikurinn var hörku spennandi eins og vænta mátti og segir Helgi að allir hafi komið með réttu hugarfari og byrjað strax í fyrsta leikhluta að berjast. Hann er ánægður með innkomu hins nýja Igors í liðið og á von á því að hann verði því drjúgur í vetur enda sé ætlunin að ljúka vetrinum með stæl.
Helgi hvetur svo alla til að fjölmenna í Laugardalshöllina 18. febrúar þar sem Tindastóll mætir Keflavík í úrslitaleiknum og vill hann sjá a.m.k. 500 manns á bandi Tindastóls í stúkunni og lofar hann öðrum tölum en þegar þessi lið áttust við síðast.
Feykir óskar nýbökuðum foreldrum til hamingju með verðandi körfuboltamann.