Á Króknum 1971 :: Í lok árs

Ágúst Guðmundsson hafði nóg að gera í áritun bóka en hann var afar ánægður með góða mætingu og undirtektir hinna fjölmörgu gesta sem kom á útgáfuhóf Á Króknum 1971. Mynd: PF.
Ágúst Guðmundsson hafði nóg að gera í áritun bóka en hann var afar ánægður með góða mætingu og undirtektir hinna fjölmörgu gesta sem kom á útgáfuhóf Á Króknum 1971. Mynd: PF.

Húsfyllir var er Ágúst Guðmundsson kynnti nýútkomna bók sína Á Króknum 1971 í útgáfuteiti sem haldið var á KK restaurant á Sauðárkróki fyrir skömmu. Bókin er gefin út í tilefni 150 ára byggðarafmæli Sauðárkróks, sem er á þessu ári, en 1971 voru árin 100. Bókin skiptist í 18 kafla og er dregin upp skemmtileg mynd af mannlífi á Króknum 1971 en á bókarkápu segir að óhætt megi segja að afmælisárið 1971 hafi verið sérlega merkilegt og viðburðaríkt í sögu bæjarins.

Í inngangi segir höfundur að fyrir fáeinum árum hafi kviknað sú hugmynd að forvitnilegt gæti verið að rifja upp hvaða búðir voru opnar á Króknum á 100 ára byggðaafmælinu 1971 og sjá hvernig verslunarhættir á Sauðárkróki hafa breyst á hálfri öld. „Við lestur heimilda kom brátt í ljós að 1971 er að öllum líkindum eitt viðburðaríkasta ár í sögu bæjarins. Miklar breytingar urðu á árinu í atvinnulífi bæjarbúa svo að um munaði og rak hver viðburðurinn annan í þeim efnum. Met var sett í fjölda bygginga með tilheyrandi vaxtarverkjum varðandi gatnagerð og lagnir.

Ekki var minna um að vera í félagslífinu. Bæjarbúar ásamt um 1600 gestum sínum fögnuðu í júlíbyrjun 100 ára byggðarafmæli Sauðárkróks með fjölbreyttum hátíðahöldum og uppákomum. Næsta helgi á eftir var um tíu þúsund manna landsmót UMFÍ haldið. Króksarar kepptust við að taka til hjá sér um vorið og mála húsin fyrir gestakomuna og ráðist var í meiri háttar framkvæmdir fyrir landsmótið. Eitthvað varð undan að láta, greiðslugeta bæjarsjóðs var orðin bágborin síðla árs. En hlutirnir hafa tilhneigingu til að bjargast eins og kunnugt er og svo fór í þetta sinn.“

Fyrir utan skemmtilegar mannlýsingar og frásagnir af bæjarlífinu eru fjölmargar myndir í bókinni frá þessum tíma. Hægt er að nálgast bókina í Skagfirðingabúð eða hjá höfundi í netfanginu ag@simnet.is. Einnig fæst hún í bókabúðum Eymundsson.
Feykir fékk góðfúslegt leyfi höfundar til að birta kafla úr bókinni og drepum við niður í lok bókarinnar.

Svanur Jóhannsson

,,ENGINN VEIT FYRR en allt í einu,“ sagði Svanur Jóhannsson bifreiðarstjóri svo réttilega. Og allt í einu var þetta viðburðaríka ár liðið. Á gamlársdag höfðu ungmenni bæjarins lokið við að hlaða upp veglega brennu á Nafabrúninni sunnan við kirkjugarðinn. Vörubílstjórar bæjarins, Maron Sigurðsson, Hjörtur Vilhjálmsson og fl. fluttu eldsmatinn fyrir lítið upp á Móa. Var ekki laust við að brennumenn yrðu hræddir á pallinum þegar Maron ók fyrir gildragið í Móunum þar sem tæpt var, en sigkappinn úr Drangey var frægur fyrir að hitta ekki alltaf á vegi eða í hurðargöt á frystihúsunum. Það kom fyrir að gömul trilla fékkst á bálið og munaði um það. Venjan var að kveikja í bálkestinum þegar aftansöngnum lauk í kirkjunni. Þá biðu brennumenn tilbúnir með kyndlana.

Brennustæðið var magnað og sást bálið víða að. Bæjarbúar gátu flestir notið brennunnar frá heimilum sínum. Eftir góða stund við bálið héldu drengir niður í bæ og gerðu at eins og kallað var. Gjarnan voru gatnamót Aðalgötu og Sævarstígs stífluð með gömlum bílhræjum, bátum og öðru er til féll. Þeir sem voguðu sér af stað á bílum sínum, lentu iðulega í vandræðum með að komast leiðar sinnar.

Lögreglan ók stundum verstu djöflamergjunum spöl út úr bænum og skildi þá eftir, t.d. við Ósbrúna. En það kom fyrir að skæruliðarnir kæmust í bæinn á undan löggunni.

Brennan hafði áður verið á næstu nöf fyrir norðan allt þar til árið 19ó4 að því best er vitað. Í brennunni þá skagaði staur einn út úr kestinum og á honum var dekk. Eðli máls samkvæmt brann spýtan í sundur og dekkið skall logandi til jarðar og rúllaði síðan niður Móana á ofsaferð og skipti engum togum að það þeyttist fram af þaki gamalla útihúsa í garði Eðvalds Gunnlaugssonar og Málfríðar Eyjólfsdóttur við Suðurgötu 16, eða Árból og hitti beint á bakdyr hússins og tók hurðarkarminn skíðlogandi með sér inn í þvottahús. Einn aðal brennumaðurinn, Sigurður A. Ólason, hljóp á eftir dekkinu alla leið og náði dekkinu af harðfylgi út úr húsinu. Var Sigurður síðar kallaður fyrir Rögnvald Finnbogason bæjarstjóra vegna málsins. En úr rættist og Siggi Óla o.fl. gátu laumað sér inn á áramótaballið í Bifröst en Sveinn Friðvinsson var þá húsvörður.

Áramótadansleikurinn í Bifröst hófst kl. 12. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar hafði komið sér fyrir á senunni. Kannski voru fyrstir mættir Kiddi bif og Maggi Óla í sínu fínasta pússi eins og allir gestir Bifrastar þá. Á móti gestunum tóku glaðir í bragði ungu húsverðirnir, Stebbi tútti, Svenni Siffa, Gísli Sæm. og Guðmundur Ó. Fljótlega snaraðist inn í anddyrið fjallmyndarlegur maður, Runólfur Lárusson, Ranni, með flösku í belti. Eftir að hafa borgað sig inn og heilsað upp á fólkið, er fjallgrimm vissa fyrir því að hann hefur gengið beint inn á salernið. Eftir vandaða snyrtingu og nýgreiddur, segir hann með djúpri röddu við spegilinn: Runólfur Lárusson, ungur, fjallmyndarlegur maður, vel klæddur, fílhraustur, 120 kíló og köttur liðugur.

Þegar hann gekk upp tröppurnar smellti hann í góm og hreyfði hendurnar á óborganlegan hátt, hreyfingar sem gáfu til kynna að hann væri algerlega tilbúinn að bjóða dömunum upp í dans og einnig að rota hvern þann sem lá vel við. Sá sem þetta skrifar varð vitni að þessu háttarlagi oftar en einu sinni. Næsta víst er að sjá mátti Ragnar Sighvatz á Stöðinni, snyrtilegan að vanda, og líklega var Gumbi, Guðmundur Sveinsson ekki langt undan og ekki heldur Steini putt, Aðalsteinn Jónsson, með hatt á höfði og bros á vör.

Guðmundur Árnason, Muggur, varð 16 ára þennan dag og hefur ábyggilega mætt á ballið. Ekki er ósennilegt að faðir hans, Árni Guðmundsson á Skildi hafi einnig mætt til að fagna nýju ári. Flestir Króksarar fæddir 1955 hafa ekki frekar en Muggur látið sig vanta á fyrsta áramótaballið sitt. Ballgestirnir voru á öllum aldri og það gerði dansleikina á þessum árum að skemmtilegum samkomum.

Málfríður Eyjólfsdóttir

Hljómsveitin hefur rennt sér í gömlu dansana í byrjun til að koma fólkinu á gólfið. Eðvald hefur ekki beðið með að bjóða Málfríði sinni upp og saman sveif þetta glæsilega par um gólfið. Svo komu fleiri á eftir. Ekki er útilokað að Pálmi svaði Friðriksson hafi verið mættur hress og kátur að vanda. Pálmi var einstakur völundur og var með allra fyrstu mönnum hér sem gat gert við sjálfskiptingar í bifreiðum.

Þegar leið á ballið færðist för í gestina. Ingólfur Sveinsson átti það til í Bifröst að farlægja dúk og glös af einu borðinu og skipti svo engum togum að hann beit í borðið og lyfti því með kjálkunum einum saman. Þessar sýningar hjá Ingólfi voru óborganlegar og þetta léku aðrir ekki eftir svo vitað sé.

Og svo þegar leið að lokum dansleiksins um kl. 4 kynnir Geiri lokalag kvöldsins, Nú kveð ég allt, sem hann samdi við ljóð Guðrúnar Gísladóttur, skálds frá Eiríksstöðum. Lag og texti afbragð. Það var sem sé vangalagið.

Þegar Runólfur Lárusson kom gangandi utan úr bæ á heimleið af ralli átti hann það til sér til ánægju að lyfta hestasteini sem Sveinn Guðmundsson hafði komið fyrir utan við kjörbúðina við Skagfirðingabraut 17. Á steininum var koparsylgja sem Ranni greip um til að lyfta steininum. Við þessi átök færðist steinninn iðulega til frá sínum stað. Þetta jarðrask pirraði Svein. Brá hann á það ráð að steypa steininn niður. Ekki hefur liðið á löngu þar til Runólfur átti erindi út í bæ, kannski á barinn til Ingvalds og Önnu Helenu. En kraftakarlinum brá í brún á heimleiðinni þegar hann gat ekki haggað steininum. Fór hann úr jakkanum og reyndi aftur en ekkert gekk. Framhaldið er önnur saga.
Viðburðaríku og skemmtilegu afmælisári var lokið.

Áður birst í 26. tbl. Feykis 2021

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir