Áfram flugvöll í Vatnsmýri
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur sent frá sér ályktun þar sem fram kemur að Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar hafni hugmyndum um flutning innanlandsflugs úr Vatnsmýrinni í Reykjavík. Reykjavíkurflugvöllur gegni mikilvægu hlutverki í öryggisneti landsmanna þar sem nálægðin við Landsspítala Háskólasjúkrahús er hvað mikilvægust.
Þá segir í ályktun byggðaráðs að aðgengi landsbyggðar að stjórnsýslu, viðskipta- , menningar- og menntalífi landsins, sem hafi meginstarfsemi í höfuðborginni, megi ekki takmarka frekar en fjarlægðir geri nú þegar. Á það skuli minnt að Reykjavík sé höfuðborg allra landsmanna og því hafi borgaryfirvöld skyldum að gegna gagnvart landsmönnum öllum. Í niðurlagi ályktunarinnar er skorað á borgaryfirvöld og ríkisvaldið að kveða endanlega uppúr með staðsetningu Reykjavíkurflugvallar í nágrenni miðborgarinnar og hefja nú þegar tímabærar framkvæmdir við nýja samgöngumiðstöð.