Allir í Árskóla komnir með sitt eigið námstæki!

Umsjónarkennarar 1.-2. bekkjar ásamt stjórnendum, með tæki yngstu nemenda sem komu nú í janúar. Mynd: PF.
Umsjónarkennarar 1.-2. bekkjar ásamt stjórnendum, með tæki yngstu nemenda sem komu nú í janúar. Mynd: PF.

Árskóli á Sauðárkróki hefur verið í fararbroddi í notkun upplýsingatækni í skólastarfi í um áratug. Þar var einmitt fyrsti bekkurinn sem hafði iPad spjaldtölvu á hvern nemanda þegar 3. IHÓ fékk iPad á hvern nemanda árið 2012. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú í janúar 2021 varð Árskóli fyrsti stóri skólinn á Íslandi þar sem allir nemendur hafa sitt eigið tæki til umráða.

Árskóli fékk styrk í mars 2012 til þess að kaupa 25 iPad spjaldtölvur og svo um 3 milljónir árið 2014 frá Kaupfélagi Skagfirðinga og Verslunarmannafélagi Skagafjarðar sem nýttist til þess að spjaldtölvuvæða tvær bekkjardeildir til viðbótar. Síðan þá hefur hver árgangurinn á fætur öðrum bæst við. Foreldrar komu að kaupum á tækjum eldri nemenda þar sem boðið var upp á leið þar sem nemendur eiga tækin sjálfir en skólinn niðurgreiðir. Innleiðingu að spjaldtölvuvæðingu á hvern einasta nemanda og starfsmann skólans lauk nú í byrjun árs 2021.

Óskar Björnsson, skólastjóri Árskóla segir að þetta sé gríðarlega stórt skref og gleðiefni að allir nemendur hafi sitt eigið tæki til afnota í námi í Árskóla og hafa tækifæri nemenda og kennara til sköpunar og fjölbreyttari náms og kennsluhátta aukist til muna.

Í dag er það svo að skólinn á öll tæki nemenda í 1. - 6. bekk en í 7. - 10. bekk er val um hvort nemendur eða skólinn eigi tækin. Í 7. bekk býðst foreldrum barna að kaupa tæki með skólanum, sem nemandinn eignast.

Verkefnið snýst þó ekki um spjaldtölvur
Ingvi Hrannar Ómarsson, kennsluráðgjafi og verkefnisstjóri segir að miklar breytingar hafi átt sér stað á síðustu árum. Breyting úr einangrun í teymiskennslu sé líklega stærst, en þar á eftir komi tæknibreytingin. Skólinn fór þá leið að hætta leigu á tækjum, til þess að kaupa sjálfur tæki sem henta skólastarfi betur. Það ferli tók nokkur ár þar sem nemendur og starfsmenn voru færðir úr miðstýrðu PC/Office umhverfi og yfir í Mac, iPad og Google umhverfi. Þetta hafi aukið gríðarlega tækninotkun kennara, eflt samvinnu þeirra og verið gríðarlega vinnusparandi. Vinnutími kennara nýtist betur, innan og utan kennslustunda, ef tæknin flækist ekki fyrir.

Ingvi Hrannar segir að iPad-ar séu ekki verkefnið sjálft heldur eru þeir verkfæri, rétt eins og blýantur, blað, litir, hamar, málning eða bók. Verkefnið snúist um breytta náms- og kennsluhætti, að efla ábyrgð nemenda á eigin námi, auka námsáhuga nemenda, efla sköpun, samvinnu og samskipti, kenna nemendum að nýta tæknina til náms, auka aðgengi þeirra að upplýsingum og þekkingu og undirbúa þá fyrir áframhaldandi nám og störf. iPad-inn og tækni er bara stór hluti í því sameiginlega verkefni.

Úttekt 2020 á viðhorfum nemenda, foreldra og kennara á upplýsinga- og tæknimálum í Skagafirði
Árið 2020 gerði fræðsluþjónusta Sveitarfélagsins Skagafjarðar viðamikið stöðumat á innleiðingu spjaldtölvuverkefnis/greiningu á stöðu upplýsinga- og tæknimála í grunnskólum í Skagafirði til þess að varpa ljósi á hvaða árangri verkefnið hefur skilað.

Niðurstöðurnar eftir viðtöl og kannanir hjá foreldrum, kennurum og nemendum voru mjög jákvæðar en þar kemur fram að 97% nemenda telja námsáhuga sinn eins eða betri eftir að spjaldtölvurnar komu og um 80% nemenda segja að tækninotkun hafi aukið fjölbreytni í námi og verkefnum og að þeim gangi mun eða miklu betur að skipuleggja námið sitt. Foreldrar voru heilt yfir mjög ánægðir en um 90% þeirra telja að kennsluhættir skólans hafi breyst að miklu eða einhverju leyti. Kennarar voru gríðarlega jákvæðir en allir sögðu að notkun tækninnar hafi aukið fjölbreytni í verkefnum og námi nemenda og allir töldu að tækni stuðli að betri námsárangri nemenda. Þegar spurt var um tímasparnað töldu 98% kennara að ný tækni í skólunum spari þeim bæði tíma og vinnu.

Auknir möguleikar í námi og kennslu
Auk iPad spjaldtölvu á alla nemendur hafa nemendur aðgang að 70 Chromebook fartölvu. Allir kennarar hafa bæði aðgang að iPad og MacBook tölvu í starfi sínu, en um 6 ár eru nú liðin síðan Árskóli var einna fyrstur skóla að færa sig alfarið yfir í Google for Education.

Síðan hafa flestir grunnskólar fylgt í kjölfarið. Sama má segja um Seesaw ferilmöppukerfi sem Árskóli hefur notað í mörg ár og fleiri skólar fylgt í kjölfarið. Því er óhætt að segja að Árskóli sé í fararbroddi á mörgum sviðum.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af nemendum að nota iPad í leik og starfi í Árskóla undanfarin ár.
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir