Ályktanir Drangeyjar- smábátafélags Skagafjarðar

Aðalfundur Drangeyjar- smábátafélags Skagafjarðar, var haldinn 18. september sl. Í ályktunum sem samþykktar voru má finna ákveðnar áhyggjur gagnvart fiskveiðikerfinu og fiskmarkaðsmálum í Skagafirði. Eftirfarandi eru ályktanir aðalfundarins.

  1. Aðalfundur Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar skorar á stjórnvöld að endurskoða heimildir til veiða með dragnót upp í fjörur víða um land. Þá krefst Drangey þess með vísan til fyrri samþykkta félagsins og sveitarstjórnar Skagafjarðar að dragnótaveiðar á Skagafirði verði nú þegar takmarkaðar í samræmi við fyrra fyrirkomulag veiðanna á firðinum, þ.e. að svæðinu innan línu úr Ásnefi í vestri í Þórðarhöfða í austri verði lokað fyrir veiðum með dragnót. 
  1. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar lýsir yfir áhyggjum af fiskmarkaðsmálum í Skagafirði. Skorar félagið á sveitarstjórn Skagafjarðar og stjórn Fiskmarkaðs Íslands að gera allt sem unnt er til að tryggja áframhaldandi starfsemi FÍ og viðhalda þannig þeirri góðu þjónustu markaðarins sem verið hefur til staðar síðastliðin þrjú ár.
  1. Aðalfundur Drangeyjar- smábátafélags Skagafjarðar styður fram komnar tillögur um breytingar á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðárkróki. Jafnfram skorar félagið á sveitarstjórn að flýta eins og unnt er fyrirhuguðum framkvæmdum við smábátahöfnina, þ.m.t. byggingu verbúða fyrir útgerðir smábáta, að höfðu samráði við þá aðila sem hagsmuna eiga að gæta.
  1. Aðalfundur Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar mótmælir harðlega stöðvun strandveiða nú 18. ágúst 2021. Skorar félagið á stjórnvöld að tryggja það með lögum að þessar veiðar verði undanbragðalaust leyfðar í 12 veiðidaga á mánuði í fjóra valkvæða mánuði á tímabilinu frá apríl til september.
  1. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar leggur til að heimilt verði að veiða allt að 1.548 kg af ósl. þorski í einni strandveiðiferð enda fari hún ekki yfir 28 klst. og teljist þá tveir veiðidagar. Með þessu næst m.a. minni olíueyðsla og þar með minna kolefnisspor.
  1. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélag Skagafjarðar krefst þess að flotvörpuveiðum á Íslands-miðum verði tafarlaust hætt enda kemur mikið af grásleppuseiðum og öðrum fisktegundum í veiðarfærið sem meðafli.
  1. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar leggur til að byggðakvóta verði einungis úthlutað til dagróðrabáta sem eru minni en 30 brt. Þá verði allt að 10 tonn eyrnamerkt til þeirra útgerða sem átt hafa heimilisfesti í byggðarlaginu a.m.k. þrjú síðastliðin ár.
  1. Aðalfundur Drangeyjar-smábátafélags Skagafjarðar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu vistfræðilegra rannsókna á fiskistofnum við Ísland. Ljóst er að vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar t.d. í þorski, grásleppu og fleiri tegundum hafa engan veginn staðist og skýringar Hafrannsóknastofnunar ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings. Skorar félagið á nýtt Alþingi að beita sér sem fyrst fyrir því að úttekt verði gerð á stofnuninni af hlutlausum aðilum og stefna hennar tekin til gagngerrar endurskoðunar.

 

 

 

 

Fleiri fréttir