Bankaafgreiðslum í Skagafirði fækkar um tvær á næstu vikum

Sjálfsafgreiðsluvél hefur verið komið fyrir í útibúi Arionbanka í Varmahlíð. Þar hefur verið banki síðan 1979 en honum verður lokað um næstu áramót. Mynd: KSE
Sjálfsafgreiðsluvél hefur verið komið fyrir í útibúi Arionbanka í Varmahlíð. Þar hefur verið banki síðan 1979 en honum verður lokað um næstu áramót. Mynd: KSE

Eins og fram kemur í fréttatilkynningu á heimasíðu Sparisjóðanna hafa eftirlitsaðilar samþykkt samruna Arion banka og AFL sparisjóðs en áður höfðu stjórn Arion banka og fundur stofnfjáreigenda AFLs sparisjóðs samþykkt samruna fyrirtækjanna.

Arion banki mun áfram starfrækja útibú við Faxatorg en starfsemi Sparisjóðsins, sem í dag er við Ártorg, mun sameinast útibúi Arion banka. Þá stendur fyrir dyrum að loka afgreiðslu Arion banka í Varmahlíð á næstunni. Því mun bankaafgreiðslum í Skagafirði fækka um tvær á næstu vikum.

Sameinað útibú á Faxatorgi frá og með næsta mánudegi

Jóel Kristjánsson, settur Sparisjóðsstjóri, sagði í samtali við Feyki í gær að reiknað væri með að dagleg starfsemi Sparisjóðsins á Sauðárkróki yrði komin í sameinað útbú að Faxatorgi 23. nóvember. Einn starfsmaður mun flytjast þangað en gengið hefur verið frá starfslokasamningi við hina þrjá starfsmennina.

Viðskiptavinir Sparisjóðsins hafa fengið bréf þar sem samruninn er kynntur. „Markmiðið er að sameiningin valdi sem allra minnstu raski fyrir viðskiptavini. Þeir hafi í framtíðinni greiðan aðgang að góðri og yfirgripsmikilli fjármálaþjónustu.Það má alltaf gera ráð fyrir að það vakni einhverjar spurningar og það verður reynt að leysa úr því. Sem dæmi þá verður þjónustuver bankans opið um helgina,“ sagði Jóel ennfremur.

Sjálfsafgreiðsluvél í Varmahlíð

Þegar Feykir hafði samband við Magnús Barðdal Reynisson, útibússtjóri Arion banka á Sauðárkróki, í gær var verið að koma fyrir nýrri sjálfsafgreiðsluvél í útibúinu í Varmahlíð „Það verður hægt að sækja bankaþjónustu þangað, í öðru formi. Þar verður hægt að leggja inn peninga, taka út peninga og millifæra, greiða reikninga, fylla á gsm frelsi og fleira.“ sagði Magnús. „Svo munum við í desember bjóða viðskiptavinum okkar sem hafa verið að sækja þjónustu í Varmahlíð námskeið, þar sem við kennum á vélina. Bankaþjónusta hefur breyst mikið á undanförnum árum og margir farnir að nota heimabanka og app. Með lokuninni í Varmahlíð eflum við enn frekar starfslið okkar á Sauðárkóki og bjóðum bestu mögulegu bankaþjónustu“ Að sögn Magnúsar mun Erna Geirsdóttir, starfsmaður Arion banka í Varmahlíð, koma til starfa á Sauðárkróki en Ingibjörg Sigfúsdóttir lætur af störfum vegna aldurs, en hún hefur starfað við bankann síðan 1973. /KSE

Undirskriftalisti farinn af stað í Varmahlíð

Íbúi í Varmahlíð hafði samband við Feyki og sagði að sér hefði fundist þagað þunnu hljóði um lokun útibúsins þar og farinn væri af stað undirskriftalisti til að mótmæla henni. „Á þeim rúmum áratug sem ég hef búið hér hafa horfið að minnsta kosti tíu störf á einum kílómeter. Mér skilst að gjaldkerarnir í Varmahlíð hafi til skamms tíma verið með fleiri afgreiðslur en þeir á Króknum. Mætti ekki til dæmis stunda svokallaða bakvinnslu í Varmahlíð og hafa opið, þó ekki sé nema hálfan daginn? Stóra málið er auðvitað skert þjónusta og svo skilur enginn hví fækkar á landsbyggðinni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir