Bjart útlit fyrir góða kornuppskeru í haust
Kornskurður hófst í Skagafirði sl. mánudag þegar níu hektarar voru þresktir fyrir bændur á Minni-Ökrum. Að sögn Sævars Einarssonar, stjórnarformanns Þreskis, er útlitið bjart fyrir góða kornuppskeru í haust. „Þetta lítur rosalega vel út, orðið ótrúlega vel þroskað miðað við tímann og virðist vera feikna uppskera. Það eru þessir heitu dagar í júlí og ágúst sem hafa skilað þessu en ef það hefði verið normal vor í maí og júní þá væri þetta komið ennþá lengra. Maður var frekar svartsýnn í maí að það yrði varla nema meðaluppskera.“ Sævar segir að kornskurðurinn nú sé með fyrra fallinu og óvenju mikið af ökrum sem eru að verða tilbúnir til þreskingar.
Þurrkað og sýrt
Sævar segir að það korn sem þreskt var sl. mánudag hafi allt farið í þurrk í Vallhólma en þar er staðsett þurrksíló en ýmist hafa bændur þurrkað kornið eða sýrt með própíonsýru. „Mér heyrist að menn ætli að þurrka meira núna en áður, trúlega af því að kornið er betur þroskað.“
Með þurrkun segir Sævar að geymslan verði tryggari og stór hluti þess fari í Bústólpa á Akureyri þar sem fóðurkögglar eru unnir.