Björgunarsveitirnar styrktar

Björgunarsveitirnar sinntu fjölmörgum útköllum í veðurofsanum og verkefnin voru margvísleg. Myndin er tekin af Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Grettis.
Björgunarsveitirnar sinntu fjölmörgum útköllum í veðurofsanum og verkefnin voru margvísleg. Myndin er tekin af Facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Grettis.

Blönduósbær og Sveitarfélagið Skagafjörður hafa tekið ákvörðun um að styrkja björgunarsveitirnar á sínum svæðum um eina milljón króna hverja en auk þess styrkir Sveitarfélagið Skagafjörður Skagfirðingasveit um hálfa milljón vegna umfangs stjórnstöðvar. Er þetta gert í kjölfar þess mikla óveðurs sem gekk yfir norðanvert landið í síðustu viku og skapaði mikið álag á björgunarsveitir á svæðinu. Áður hefur sveitarstjórn Húnaþings vestra styrkt Björgunarsveitina Húna um eina milljón króna.

Á fundi sveitarstjórnar Blönduósbæjar sem haldinn var 17. desember sl. var eftirfarandi tillaga lögð fram og samþykkt samhljóða:

Björgunarfélagið Blanda hefur unnið þrekvirki síðastliðna viku við að aðstoða íbúa og stofnanir sveitarfélagsins sem og í nágrannasveitarfélögum, við mjög erfiðar aðstæður. Félagsmenn björgunarsveita leggja mikið á sig, oft í mjög erfiðum aðstæðum, til þess að tryggja öryggi íbúa. Það á bæði við um beina aðstoð við íbúa og ekki síst aðstoð við Rarik og Landsnet við að koma á rafmagni, sem og Heilbrigðisstofnun Norðurlands við að koma starfsfólki, sjúklingum og aðstandendum að og frá stofnuninni.

Í þakkarskyni hefur Blönduósbær ákveðið að styrkja Björgunarfélagið Blöndu um eina milljón króna vegna mikils álags síðustu daga og fara þar með að fordæmi Húnaþings vestra sem styrktu Björgunarsveitina Húna á Hvammstanga með sambærilegum hætti.“

Ennfremur skorar Blönduósbær á önnur sveitarfélög, RARIK, Landsnet, HSN og fleiri að styrkja með beinum hætti björgunarsveitir sem voru þeim innan handar í óveðrinu síðastliðna viku, við mjög erfiðar aðstæður.

Björgunarsveitum í Skagafirði þökkuð störf

Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar sem haldinn var í gær, 18. desember, var samþykkt að styrkja björgunarsveitirnar þrjár í Skagafirði, Björgunarsveitina Gretti, Skagfirðingasveit og Flugbjörgunarsveitina í Varmahlíð, um eina milljón króna hverja. Að auki fær Skagfirðingasveit 500.000 kr. vegna umfangs stjórnstöðvar.

Í fundargerð segir:

„Það er ómetanlegt fyrir sveitarfélag að eiga að sjálfboðaliðasveitir eins og björgunarsveitirnar sem á hvaða tímum og aðstæðum sem er, eru tilbúnar að fara til aðstoðar og leggja jafnvel líf og heilsu að veði.
Byggðarráð vill einnig þakka íbúum sveitarfélagsins fyrir að virða viðvaranir sem gefnar voru út og gera viðeigandi ráðstafanir sem gerðu alla vinnu viðbragðsaðila einfaldari í þessum erfiðu aðstæðum.
Í ljósi þessa samþykkir byggðarráð að styrkja björgunarsveitirnar þrjár í Skagafirði um samtals 3.500.000 kr. sem skiptist þannig að hver sveit fær 1.000.000 kr. í sinn hlut og að auki fær Skagfirðingasveit 500.000 kr. vegna umfangs stjórnstöðvar."

Byggðaráð þakk­ar einnig starfs­mönn­um RARIK í Skagaf­irði fyr­ir ósérhlífni í þeirra störfum undanfarna daga þar sem þeir unnu fáliðaðir í mjög erfiðum aðstæðum og seg­ir ljóst að fjölga þurfi í starfsliði RARIK á Sauðár­króki.

„Í samn­ingi um sölu Raf­veitu Sauðár­króks til RARIK voru gef­in fyr­ir­heit um fjölg­un starfa og frek­ari innviðabygg­ingu sem ekki hef­ur gengið eft­ir hingað til. Þvert á móti hef­ur starfs­fólki fækkað. Byggðarráð samþykk­ir að fela sveit­ar­stjóra að óska eft­ir fundi með stjórn RARIK sem allra fyrst,“ seg­ir í fund­ar­gerð byggðarráðs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir