Brugðist við myglu í skólahúsinu á Hofsósi

Skólahús á Hofsósi. Mynd: FE.
Skólahús á Hofsósi. Mynd: FE.

Í athugun frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra sl. vor komu fram jákvæð svörun í ætisskálar fyrir myglu á tveimur stöðum í eldri hluta skólans á Hofsósi. Brugðist var strax við með ákveðnar aðgerðir og nú hefur hluta skólahússins verið lokað meðan verkið er klárað.

Jóhann Bjarnason, skólastjóri Grunnskóla austan Vatna, segir að síðastliðið vor hafi heilbrigðiseftirlitið verið fengið til að taka sýni í byggingunni þar sem menn höfðu áhyggjur af ástandi hússins. Segir hann að þá hafi jákvæð niðurstaða komið úr prófi á köldu háalofti en ekki í kennslurýmum né öðrum innirýmum. „Við því var brugðist með því að fá verktaka í að fjarlægja gamlan stromp þar sem vart hafði verið leka auk þess sem háaloftið yrði allt hreinsað, einangrun endurnýjuð og loftun aukin. Í kjölfarið átti að fjarlægja loftaefni úr stigahúsi á 1. og 2. hæð sem sáust í rakablettir, mála loft og fleiri minniháttar lagfæringar inni til að loka sjáanlegum rakaskemmdum sem hlotist höfðu m.a. af leka frá umræddum strompi.

Því miður gat verktaki ekki komið að verkinu fyrr en nú rétt undir mánaðamótin nóvember desember en þá voru fyrrnefnd tvö sýni tekin á meðan á framkvæmdum stóð. Við þessum jákvæðu niðurstöðum í kennslurými og gangi var brugðist samstundis með því að loka þessum hluta hússins fyrir allri kennslu og starfsemi. Þá tók við mat á alvarleika og umfangi ástandsins jafnframt því að farið var strax í hreinsun samkvæmt leiðbeiningum frá Heilbrigðiseftirlitinu. Leitað var til þekkingarfyrirtækisins Eflu við að fá úr því skorið hver staðan er á húsnæðinu og hvers eðlis myglan er. Þeir hafa þegar komið á staðinn og tekið sýni,“ segir Jóhann.

Eftirfarandi aðgerðaráætlun var virkjuð í samvinnu við tæknideild Sveitarfélagsins:

  • Elsta hluta skóla hefur verið lokað fyrir kennslu það sem eftir lifir þessa árs.
  • Eldri og nýrri hluti skóla hafa verið aðskildir, tryggt að loft og fl. berist ekki á milli byggingar hluta.
  • Sýni hafa þegar verð tekin úr byggingarefni, loftaklæðningu, veggnum og gólfi þar sem sýnileg ummerki eru um raka, eða grunur um raka.
  • Rusli/gömlum ónýtum munum verður hent úr stofum og göngum.
  • Hluti af kennslugögnum og munum úr ákveðnum rýmum verða færð yfir í Áhaldahús Hofsósi, þar sem þeir bíða þrifa og verða ekki tekin þaðan fyrr en lokið verður við fyrstu aðgerðir á skóla.
  • Önnur kennslugögn og munir úr öðrum rýmum verða í skólanum um sinn, en þessum rýmum hefur verið lokað, teipuð aftur.
  • Fjarlægja loftaefni úr stigahúsi á 1. og 2. hæð og hluta af göngum, þar sem hefur blotnað, mála loft og fl. minniháttar lagfæringar inni.
  • Hús og munir þrifnir að framkvæmdum loknum skv. leiðbeiningum.
  • Að þessum aðgerðum loknum, gerð myglupróf.

„Þegar niðurstöður rannsókna liggur fyrir verður þessi verkáætlun að sjálfsögðu endurskoðuð með tilliti til þess hvort frekari aðgerða sé þörf en annars er okkar von að næstu vikur, meðan nemendur eru í jólafríi, náist að ljúka sem allra mestu af þessum aðgerðum og skólastarf geti hafist að nýju,“ segir Jóhann að lokum.

Fleiri fréttir