Búskapur hefur alltaf verið í mér - Nafabóndinn Sigurbjörn Árnason

Nú hefur heldur betur færst líf á Nafirnar á Króknum þar sem sauðburður er langt kominn og jafnvel búinn hjá flestum Nafabændum. Feykir tók hús á einum þeirra sl. föstudag, Sigurbirni Árnasyni, sem festir þekkja sem Bjössa húsvörð, en hann hefur gegnt þeim starfa við íþróttamannvirkin á Sauðarkróki. Þegar viðtalið átti sér stað var kalt í veðri en þó þurrt og mundu menn ekki hlýrra daga síðan í apríl, ýmist næturfrost, hrím eða snjókoma. Líkt og aðrir Nafabændur er Bjössi ánægður með að eiga kost á að snúast í kringum sínar kindur og vera þátttakandi í skemmtilegu mannlífi.
Það er æði misjafnt hvað frístundabændurnir á Nöfunum finnst vera mátulegur fjöldi fjár sem þeir halda en Bjössi segist hafa verið með 15 hausa í vetur og telur það mátulegt fyrir sig. Einn hrútur var í hópnum en var látinn fara þar sem hann var orðinn of skyldur hjörðinni. „Það er nú málið, maður verður alltaf að fá sér nýjan hrút þegar maður er með svona fátt fé. Hann var orðinn eitthvað slappur í löppuum og lét hann fara en ég læt einn hrút lifa. Sá er golsóttur,“ segir hann en hrúturinn sá er einn af 20 lömbum sem fæddust núna.
Bjössi segir sauðburðinn hafa gengið vel nema þá helst hjá gemlingunum tveimur sem þurfti að hjálpa. Alls báru ellefu kindur 21 lambi en eitt þeirra drapst.
Hópurinn hjá Bjössa hefur verið stærri en þá var hann í samstarfi við Sigrúnu Halldórsdóttur, sem lést fyrir nokkrum árum. „Já, ég er búinn að fækka frá því að við Sigrún vorum með um tuttugu og fimm sex kindur og áttum þær til helminga. Ég hef aldrei verið með meira en fimmtán sjálfur.“
Ekkert upp úr búskap að hafa
Auk þess að vera með kindur hafa hrossin alltaf fylgt Bjössa og er hann með hross í Skarði, Í Gönguskörðum. „Þau eru fjögur þar núna. Jóhann Björn, sonur minn er svo með tvö niður í hesthúsum þar sem við leigjum,“ segir Bjössi og bætir við að hann sjálfur er farinn að draga saman seglin í reiðmennskunni eftir að hann meiddist í öxlinni. EN þá hefur hann meiri tíma til að sinna kindunum sem hafa lengi verið honum hugleiknar. Hann segist þó ekki eiga allar kindurnar þar sem Jóhann Björn eigi einhverjar en líkt og sá gamli hefur hann gaman af þessu stússi líka. Þá segir hann annan son sinn, Árna Geir, vera með flest hrossin fyrir sunnan þar sem hann á hesthús en kemur með þau flest á sumrin í hagagöngu.
„Það er alveg sama hvar ég hef verið, ég hef alltaf verið með kindur. Þegar ég kom hingað byrjaði ég uppi í Skarði með Kristjáni Óla svo fór ég til Guðmundar Óla og var þar með fjórar kindur. Svo fór ég til Ísaks, þá með sex kindur og kom svo hingað til Sigrúnar og er búinn að vera hér síðan. Ætli ég sé ekki búinn að vera með hesta og kindur hér á Króknum síðan 1988 en ég flutti 1986. Árið 1962 flutti ég frá Hofi í Varmahlíð til Akureyrar og átti heima þar í smá tíma en gat aldrei búið á Akureyri. Ég reyndi það en það tókst ekki, ég sótti alltaf eitthvert annað. Fór í sveit á sumrin, var hjá Jósep á Torfustöðum, byrjaði þar, fór svo til Óttars í Syðra-Laugalandi fram í Eyjafirði, var kúasmali, svo fór ég í Hörgárdal. Í Saurbæ í Lýtingsstaðahreppi var ég mikið en skyldfólk mitt er þar, fór til Tóta heitins og Möggu.“
Vænar kindur af fjalli. Mynd: Aðsend.
Þér hefur ekki dottið í hug að gerast bóndi sjálfur?
„Jú, jú, það hefur stundum verið talað um það en eftir að ég kynntist Guðrúnu þá var það ekki inni í myndinni. Hún sagði að það kæmi ekki til greina, það væri ekkert upp úr þessu að hafa. Svo það þýddi ekkert að hugsa um það. Þá gerðist ég bara Nafabóndi. Búskapur hefur alltaf verið í mér. Eftir að ég fór svona illa í öxlinni þá hefur verið minna um hestamennsku.“
Bjössi heyjar tvö tún á Nöfunum, lætur slá og binda en hann snýr og garðar sjálfur.
„Þetta er það sem ég er að gefa rollunum mínum af þessum gömlu túnum og þetta er alveg mjög gott, ég gef ekki fóðurbæti eða annað, bara hey. Ég hef bara gaman af þessu og gott að vera hér, hafa þetta svona nálægt, gott í sauðburðinum. Ég fer klukkan 12 á miðnætti aftur klukkan þrjú fjögur og svo í seinasta lagi klukkan hálf sjö ef það er sauðburður. Svo fer ég í vinnu klukkan átta og vinn fram að hádegi núna orðið,“ segir hann en á íþróttavellinum er hann í hálfri vinnu. Um sumarið og fram á haust er þó eitthvað meira að gera þar sem hann vinnur af sér desember og janúar þegar ekkert er að gera á vellinum.
Staðan góð á íþróttavellinum
Eftir 37 ára starf er Bjössi hættur í húsvarðastöðinni en verður viðloðandi íþróttavöllinn. „Ég byrjaði í febrúar árið ´86 í kringum íþróttirnar. Flutti hingað um haustið ´85 og fór fyrst í fiskiðjuna og ætlaði mér að keyra rútuna og annast viðgerðir en svo vildi til að tveir menn voru ráðnir. Það var kannski eins gott því þá fór ég í íþróttirnar. Hestamennskan kom þar strax, ég kynntist Guðrúnu og það var nóg af hestum í Viðvík hjá Ottó svo þetta var bara gaman.“
Hvernig finnst þér staðan vera á útiíþróttunum? „Bara mjög góð. Ég er ánægður hvernig þetta er að ganga núna í fótboltanum. Það mætti kannski halda betur utan um frjálsarnar hjá miðstiginu en mjög gott utanumhald hjá yngstu og elstu iðkendum. Aðstaðan er nokkuð góð en ég hefði ekkert á móti því að fá betri tæki. Mig vantar vinnuvél sem nýtist allan ársins hring. Við erum með gamla dráttarvél sem er ekki alveg upp á það besta í dag. Það þyrfti fjórhjóladrifna vél með tönn framan á sem gæti bæði burstað völlinn og mokað á veturna.“
Áður birst í 19. tbl. Feykis 2022