Byggðaráð harmar viðbrögð ráðuneytisins
Á fundi byggðaráðs Skagafjarðar frá 13. janúar sem haldinn var á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki var lögð fram bókun varðandi vinnu heilbrigðisráðuneytis og þeirri túlkun ráðherra að um samráðsfund hafi verið að ræða þeirra í millum. Bókunin er svohljóðandi.
Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar gagnrýnir harðlega hvernig ráðuneyti heilbrigðismála hefur staðið að breytingum á heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi.
Á fundi með heilbrigðisráðherra og fulltrúum ráðuneytisins miðvikudaginn 13. janúar sl. var tilkynnt ákvörðun ráðuneytisins um að stofna eina heilbrigðisstofnun fyrir allt Norðurland. Byggðaráð telur ekki að um samráðsfund hafi verið að ræða þar sem tilkynnt var ákvörðun og annað ekki til umræðu og því að mati ráðsins ekki fullnægt ákvæðum laga um samráðsskyldu ráðuneytisins í málinu. Fulltrúar sveitarfélagsins óskuðu eftir því að hefja viðræður við ráðuneytið um yfirtöku á stofnuninni m.v. fjárlagaramma ársins 2009 og þar með mæta óskum ráðuneytisins um sparnað á því ári. Því hafnaði ráðherra og sagði mögulegar viðræður eingöngu geta orðið við nýja stofnun á Norðurlandi eftir að endurskipulagning starfseminnar hafi átt sér stað.
Byggðaráð harmar viðbrögð ráðuneytisins og krefst þess að ráðuneytið upplýsi nú þegar hvað felst í endurskipulagningu á Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki.
Byggðaráð ítrekar fyrri óskir um viðræður við ráðuneyti heilbrigðismála um úrlausnir er tryggi áfram góða og öfluga þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki.