Dejan hótað lífláti

Þrír leikmenn Víðis réðust að Dejan Djuric leikmanni Tindastóls eftir leik liðanna sl. sunnudag. Dejan náði að flýja inn í bíl sinn en þremenningarnir létu högg og hráka auk ljóts orðsbragðs dynja á bílnum.


Forsaga málsins var sú að Slavisa Mitic, leikmaður Víðis, hlaut rautt spjald eftir að hafa farið illa í Dejan og lenti leikmönnunum tveimur saman inni á vellinum. Þar á Slavisa að hafa hótað Dejan lífláti eftir leik. Eftir að Dejan hafði farið í sturtu eftir leik og var á leiðinni út í bíl sinn réðst Slavisa ásamt tveimur öðrum leikmönnum Víðis að Dejan sem náði að forða sér inn í bifreið sína þar sem hann hélt hurðinni lokaðri undan árásum þremenninganna.

Árásin hefur verið kærð til lögreglu en samkvæmt heimildum blaðsins hefur Slavisa hringt og beðið afsökunar á framferði sínu. Þá hefur formaður Víðis fyrir hönd stjórnar beðist afsökunar á atvikinu, sé það rétt.

Fleiri fréttir