Dugnaðarkona á tíræðisaldri í opnuviðtali Feykis
Guðríður B. Helgadóttir hefur upplifað tímana tvenna, eða margar stökkbreytingar, eins og hún orðaði það. Hún segir það hafi verið geysilega mikil forréttindi að upplifa svona margar og miklar breytingar, þó að það hafi ekki verið nokkur aðlögunartími að sumum þeirra.
Guðríður rifjaði nokkra af þessum atburðum upp með blaðamanni Feykis á dögunum og er hún í opnuviðtali Feykis þessa vikuna. Guðríður segir m.a. frá því þegar fjölskyldan flutti úr Laxárdalnum í Austur- Húnavatnssýslu árið 1935 til Tungu í Gönguskörðum í Skagafirði en þetta var torfarin leið yfir fjöllin.
„Þegar við fluttum búferlum fórum við með hestalestina yfir kambana en það er mjög erfið leið. Þar eru snarbrattar hlíðar báðum megin og skagar einn melurinn langt út í gilið og heitir sá Kattarhryggur. Oft voru hlíðarnar sundurskornar í leysingum á hverju vori, sem skildi eftir sig djúpar skorur, oft alveg niður í hart berg,“ útskýrir Guðríður en þetta var alfaraleið hér áður fyrr og reyndu menn að laga þetta til ef mikið rann úr.
„Ég man að við vorum með stóra sláturpottinn brekkumegin, af því hann skagaði ekki eins langt út og fataskápurinn sem var hinum megin, undan brekkunni. Þetta fluttum við á stærsta hestinum,“ segir hún og hlær. Öll búslóðin var flutt með þessum hætti en Guðríður segir að í þá daga hafi fólk ekki átti mikið af húsgögnum.