„Ef amma kæmi í partýið þá myndi ég setja á Geirmund“ / INGUNN MARÍN

Ingunn Marín. AÐSEND MYND
Ingunn Marín. AÐSEND MYND

Í Austurgötunni á Hofsósi býr ung snót, Ingunn Marín Bergland Ingvarsdóttir, fædd 2008 og því 15 ára á árinu, en hún tók á dögunum þátt í Norðurorgi sem er söngkeppni félagsmiðstöðvanna á Norðurlandi. Ingunn hefur áhuga á leiklist, söng og tísku. „Ég er að læra á rafmagnsgítar hjá Einari Þorvaldssyni en tel mig vera þúsundþjalasmið í þjálfun og spila líka á píanó, blokkflautu og ukulele. Þegar ég var mjög ung prófaði ég að læra á fiðlu,“ segir hún.

„Fyrstu fimm ár ævinnar ólst ég upp í Áslandinu í Hafnarfirði innan um fólkið í blokkinni. Á sjötta ári fluttumst við fjölskyldan hreppaflutninga á Hofsós og erum hér enn þann dag í dag. Ættir mínar eru héðan úr Hofshreppi hinum forna en þar bjuggu forfeður og formæður mínar. Ég er af hinu frábæra Bjarnastaðakyni þar sem Bjarnastaðaþrjóskan á uppruna sinn. Þið vitið hvað ég meina ef þið þekkið Ásdísi ömmu mína og ömmu- systurnar.

Sem fyrr segir tók Ingunn þátt í Norðurorgi. „Ég söng lagið Before He Cheats með Carrie Underwood á Norðurorgi. Ég hef líka sungið og spilað mikið í tónlistarskólanum. Í haust tók ég þátt í sýningu Frásögu þar sem ég söng með góðu teymi tónlistarfólks úr héraði og Eyjafirði.“

„Það er allavega nóg um að vera,“ svarar Ingunn þegar Feykir spyr hana [í lok mars] hvað hún sé að sýsla þessa dagana. „Ég er að taka þátt í uppsetningu á Saumastofunni hjá Leikfélagi Hofsóss en þar leik ég Himma sendil. Grunnskólinn austan Vatna er að undirbúa árshátíð og þar leik ég Soffíu frænku í Kardemommubænum. Sam-spilshópur tónlistarskólans spilaði og söng í æskulýðs-messu nú fyrr í mánuðinum og Norðurorg er nýbúið og söng ég þar fyrir hönd félagsmiðstöðvarinnar Frið-ar.“ Það er greinilega nóg að gera hjá ungu fólki á 21. öldinni. En vindum okkur í spurningarnar...

Hvaða lag varstu að hlusta á? Ég var að hlusta á Braggablús með Bubba Morthens.

Uppáhalds tónlistartímabil? Ég hlusta mjög mikið á Bubba Morthens eins og flestir í fjölskyldunni en annars er tónlist frá níunda áratugnum og frá því um aldamótin það helsta sem ég hlusta á. Ég hlusta líka á nýju lögin þess á milli.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Tónlist sem fær mann til að hreyfa sig.

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? Lagið Er nauðsynlegt að skjóta þá í útsetningu 9 líf sýningarinn-ar í Borgarleikhúsinu.

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvaða lag tækjuð þið? Ég myndi vilja syngja dúett með Bubba Morthens og syngja lagið Braggablús af því að þetta lag er mjög grípandi. Annars myndi ég líka vilja syngja dúett með Agli Ólafssyni og lagið Slá í gegn af því lagið er saga lífs míns … djók.

Hvers konar tónlist var hlust-að á á þínu heimili? Ingólfur Karel og Símon Kári bræður mínir mótuðu tónlistarsmekk minn því þeir voru þeir einu sem hlustuðu á tónlist þegar ég var ung, eins og Blaz Roca, Bubba, Írafár, Papana, Magna Ásgeirs og Matta Matt. Þess vegna er tónlistarsmekkurinn minn í rugli af því að mamma kom síðan inn seinna með svo skrítin og leiðinleg lög sem hljóma öll eins. Pabbi á til dæmis plötu með Kim Larsen og risastórt safn af breskri rokktónlist frá fornöld, mamma á geisladiska með kórtónlist, Megas og væmnum lögum og systir mín er vandræðalega mikill Bubba aðdáandi. Og veistu hvað amma mín hlustar mest á? Geirmund Valtýsson!

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Mary Poppins geisladiskurinn úr söngleiknum sem Borgarleikhúsið sýndi var fyrsti geisladiskurinn sem ég keypti. Einnig keyptum við oft geisladiska leikhópsins Lotta.

Hvaða græjur varstu þá með? Bleika geislaspilarann sem ég fékk í jólagjöf þegar ég var tveggja ára.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Þau eru mjög mörg. Ég ætla fyrst að nefna Í bláum skugga með Stuðmönnum og síðan er það Braggablús. Svo hef ég eiginlega hlustað á Bubba síðan í móðurkviði þannig að öll lögin hans eru fyrstu tónlistarminningar mínar.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Jeminn. Ég verð að segja að lög Papanna séu lögin sem fara óstjórnlega í taugarnar á mér eftir að hafa hlustað á þá endalaust og stanslaust í bílnum og í húsbílarútunni þegar ég var lítil.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ef amma kæmi í partýið þá myndi ég setja á Geirmund, Ellý Vilhjálms og öll þessi gömlu góðu. Ef fjölskyldan kæmi í partýið þá myndi ég útrýma Pöpunum og setja á danstónlist sem hægt er að syngja með því þau hafa mjög gaman af því að syngja og dansa í stofunni – þó svo að nágrannarnir séu ekki eins ánægðir. Ef þetta væru vinir mínir að koma í party þá myndi ég pottþétt setja Pump up the jam eða lög með Tólfunni og klassísk partýlög.

Hvernig heldurðu að Diljá gangi í Eurovision? Ég horfði ekki á Eurovision og verð eiginlega að segja pass en óska henni góðs gengis.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Rólega tónlist sem ég get sungið hástöfum með.

Er eitthvert eitt lag sem þú hefðir viljað hafa samið og hvað er spes við það? Ég hefði svo viljað hafa samið lagið Love on the Brain með Rihönnu vegna þess að ég tengi svo mikið við þetta lag.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég myndi vilja fara á tónleika með Rihönnu í Brasilíu. Ég myndi taka einhvern sem kann lögin hennar eins og Kötlu Huld.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? Ég myndi segja að Bríet hefur haft áhrif á mig sem tónlistarmann. Listakonan Bríet er bara svo mögnuð. Ég myndi svo alveg vilja vera Rihanna í eina viku.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út eða sú sem skiptir þig mestu máli? Ég hlusta lítið á heilar plötur heldur hlusta ég á lög af plötum. En þau lög sem hafa skipt mig mestu máli eru lögin hans Bubba (hverjum hefði dottið það í hug eftir að lesa svörin mín heheheh). Það er svo mikil saga á bak við lögin hans Bubba.

Er eitthvað sem þú gerir alltaf þegar þú stígur á svið? Já, ég hugsa: „F… it, you only live once!”

Sex vinsælustu lögin í síma Ingunnar:
Braggablús / Bubbi
Er nauðsynlegt að skjóta þá / Elín Hall úr 9 líf
Má ég koma heim / Blaz roca
Úti í Eyjum / Stuðmenn
Crazy in Love / Beyoncé og JAY-Z
Love / Keysha Cole

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir