Endurbætur á Kaffi Krók að hefjast
Skipulags- og bygginganefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur samþykkt umbeðnar endurbætur á húseigninni við Aðalgötu 16 á Sauðárkróki en húsið skemmdist mikið í bruna þann 18. janúar sl.
Það var Sigurpáll Þ Aðalsteinsson sem fyrir hönd Videosport ehf.sótti um leyfið en endurbætur á húsinu voru teiknaðar af Bjarna Reykjalín arkitekt og byggingartæknifræðingi. Þá liggur fyrir umsögn Húsafriðunarnefndar. Á þessum sama fundi sótti Sigurpáll um að fá úthlutað lóðinni nr. 18 við Aðalgötu sem í framhaldinu yrði sameinuð lóðinni nr. 16. Hafði hann fyrirhugað að nýta lóðina til að bæta aðgengi að húsinu á lóðinni nr. 16 og fyrir aukin bílastæði. Var beiðni hans hafna þar sem verið er að vinna að tillögum um uppbyggingu gamla bæjarhlutans á Sauðárkróki og yrði frekari afgreiðsla að bíða þeirra tillagna.