Erfiðlega gengur að manna leikskóla í Skagafirði
Á fundi fræðslunefndar Skagafjarðar í síðustu viku var starfsumhverfi leikskóla í Skagafirði til umfjöllunar. Þar kom m.a. fram að erfiðlega gangi að manna fjölmarga vinnustaði í sveitarfélaginu og þar á meðal leikskóla. Því til skýringar er bent á að atvinnuleysi á Norðurlandi vestra mælist undir 1%. „Leitað er allra leiða til að fá fólk til starfa á leikskólum sem hafa skilað nokkrum árangri. Jafnframt hefur verið auglýst eftir dagforeldrum, en engar fyrirspurnir hafa borist vegna þess,“ segir í fundargerðinni.
Í fundargerð segir að fræðslunefnd hafi ráðist í margvíslegar aðgerðir á kjörtímabilinu til að bæta starfsumhverfi leikskóla í Skagafirði og bregðast við áskorunum er tengjast fjölgun barna og mönnun starfsstöðva. „Þar má meðal annars nefna tímabundnar aðgerðir sumarið 2022 og umfangsmikla vinnu spretthóps um nýja nálgun í leikskólamálum í Skagafirði þar sem markmiðið var að efla starfsumhverfi bæði fyrir börn og starfsfólk með vellíðan og velferð allra í huga.“
Þá kom fram að upplýsingar sem nú þegar liggja fyrir um áhrif nýrrar nálgunar í leikskólamálum í Skagafirði eru m.a að meðaldvalartími barna hefur minnkað sem hefur létt álagi á starfsmenn og börn.
Atvinnuleysi á Norðurlandi vestra mælist nú undir 1% og erfiðlega gengur að manna fjölmarga vinnustaði, þ.á.m. leikskóla. Leitað er allra leiða til að fá fólk til starfa á leikskólum sem hafa skilað nokkrum árangri. Jafnframt hefur verið auglýst eftir dagforeldrum, en engar fyrirspurnir hafa borist vegna þess.
Til að reyna að laða að dagforeldra hefur félagsmála- og tómstundanefnd samþykkt að hækka greiðslur til foreldra barna eldri en 12 mánaða sem bíða eftir leikskóladvöl.
„Til að styðja enn betur við mannauð leikskólanna, stuðla að heilbrigðu og stöðugu starfsumhverfi og tryggja áframhaldandi gæði og jákvætt leikskólastarf til lengri tíma er lagt til að sveitarfélagið kaupi þjónustu frá Auðnast ehf., sem sérhæfir sig í heilsu- og sálfélagslegri vinnuvernd. Þjónustan felur meðal annars í sér ráðgjöf, fræðslu og stuðning með það að markmiði að bæta líðan, efla starfsánægju og draga úr fjarvistum.“
Fræðslunefnd samþykkti í framhaldinu samhljóða að fela leiðtoga farsældar, fræðslu og ráðgjafar að ganga til samninga við Auðnast ehf., og vinna málið áfram.
