FISK gefur björgunarvesti til Skagafjarðarhafna

Á dögunum afhenti FISK Seafood á Sauðárkróki Skagafjarðarhöfnum að gjöf tvo kassa með björgunarvestum sem staðsettir verða annars vegar austan við Hafnarhúsið á Sauðárkróki og hins vegar við Hafnarhúsið á Hofsósi. Í hvorum kassa eru 20 björgunarvesti í mismunandi stærðum og er gjöfin liður í að auka öryggi þeirra sem leggja leið sína á hafnirnar.
„Með þessu framtaki leggjum við áherslu á aukið öryggi barna og unglinga á höfnunum með bættu aðgengi að björgunarvestum og þætti okkur vænt um að sjá þau í notkun,“ segir Stefanía Sigurðardóttir gæða- og öryggisstjóri FISK Seafood í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.
Þar kemur aukinheldur fram að Dagur Baldvinsson, hafnarstjóri, hafi viljað koma á framfæri þakklæti til FISK Seafood fyrir höfðinglega gjöf til Skagafjarðarhafna. „Vestin munu komu sér vel á bryggjunum og viljum við minna á að það er skylda fyrir börnin að vera í vestum meðan þau eru að veiða á bryggjunum, það er of algengt að sjá þau vestislaus. Hafnarstarfsmenn munu vera duglegir að benda krökkunum á vestin og aðstoða þau ef á þarf að halda,“ er haft eftir Degi.