Fiskmarkaður Snæfellsbæjar á Krókinn

Vegfarendur sem um Eyrarveginn fara á Sauðárkróki hafa getað fylgst með niðurrifi gömlu Sandbúðanna svokölluðu sem hýstu m.a. saltverkun Fisk Seafood til langs tíma en fyrirhugað er að byggja þar nýja aðstöðu fyrir fiskmarkað.
Að sögn Friðbjörns Ásbjörnssonar, framkvæmdastóra Fisk Seafood, hafa Sandbúðirnar verið nýttar sem geymslur síðustu árin. Fyrirhugaðri nýbyggingu er hins vegar ætlað að hýsa starfsemi fiskmarkaðar með tilheyrandi góðri aðstöðu til að slægja, flokka, geyma og selja afla og hámarka um leið verðmæti hans. Framkvæmdirnar verða á vegum Fiskmarkaðar Snæfellsbæjar, sem m.a. selur fisk frá Akranesi, Grundarfirði, Ólafsvík, Rifi, Sauðárkróki og Tálknafirði. Friðbjörn segir að verkefnið sé enn á byrjunar- og undirbúningsstigi.