Flestar athugasemdir endurskoðaðs Aðalskipulags Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 komu frá fjáreigendum á Nöfum

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti þann 30. nóvember Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 ásamt umhverfismatsskýrslu. Alls bárust athugasemdir og umsagnir frá 102 aðilum vegna aðalskipulagsins frá umsagnaraðilum, íbúum og öðrum aðilum og voru langflestar þeirra í formi samhljóða bréfs frá frístundabændum á Nöfunum og vörðuðu fyrirhugaða stækkun íþróttasvæðisins á Nöfunum sem einkum er ætlað undir golfvöll.
Á heimasíðu sveitarfélagsins kemur fram að sveitarstjórn hafi fallist á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á framkomnum umsögnum og athugasemdum og hefur skipulagstillagan verið uppfærð í samræmi við afgreiðsluna. Öll skipulagsgögn, athugasemdir, umsagnir og viðbrögð sveitarstjórnar eru aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins.
Eins og að framan greinir komu langflestar athugasemdirnar frá lóðaleiguhöfum á Nöfum: „Í núgildandi Aðalskipulagi er gert ráð fyrir íbúðabyggð á hluta svæðisins og er fullur skilningur fyrir breytingum á lóðasamningum í því tilviki, hinsvegar að taka út svæði sem hefur verið notað undir frístundabúskap og merkja það öðrum frístundum er gjörningur sem hugnast mér/okkur mjög illa,“ segir í athugasemdum sem bárust frá meðlimum Fjáreigendafélagsins. Í samhljóða bréfi fjáreigenda segir m.a.: „Fjáreigandafélag Sauðárkróks er ört stækkandi félag á þó minnkandi landnæði og að ætla að þurrka út sögu, menningu og frístundir sem snerta þó þetta marga bæjarbúa er ekki hægt að gera mótmælalaust. Óska ég/við því eftir endurskoðun og breytingum á Aðalskipulagi Sauðárkróks 2022-2035, og að það sé gerð grein fyrir þeirri stjórnvaldsaðgerð að breyta frístunda/landbúnaðar svæðum ásamt fjárborg í annarskonar afþreyingar svæði, og þar með margfalda það svæði sem nú þegar er skilgreint sem íþróttasvæði.“
Samþykkt aðalskipulagsbreyting hefur verið send til Skipulagsstofnunar til staðfestingar. Þau sem óska nánari upplýsinga geta snúið sér til sveitarstjóra eða skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins.
Nánar á heimasíðu Svf. Skagafjarðar HÉR