Frábær heimsókn á Slökkvistöðina
Mánudaginn 29. september fóru 7. bekkirnir í Árskóla á Sauðárkróki í heimsókn á Slökkvistöðina á Sauðárkróki. Nemendur voru áður búnir að lesa í samfélagsfræði um stórbruna í London, Kaupmannahöfn og Reykjavík. Vernharð slökkviliðsstjóri fræddi nemendur um hvernig staðið var að slökkvistarfi þegar kviknaði í miðbæ Reykjavíkur 18. apríl 2007 og nemendur fengu einnig að sjá myndband þar sem sýnt var hversu hratt kviknar í herbergi þegar kerti fer á hliðina.
Flestum fannst ótrúlegt hvað hitinn í herberginu var fljótur að hækka og hversu heitt varð þar. Síðan skoðuðu nemendur kranabíl og dælubíl. Krakkarnir voru mjög spenntir að fá að fara upp með kranabílnum. Hann fór í 22 metra hæð og var útsýnið uppi frábært. Þeir sem vildu fengu einnig að prufa að sprauta með vatnsdælunum á dælubílnum og var ekki laust við að sumir blotnuðu aðeins. Það vakti einnig mikla lukku þegar Svavar klifraði upp á bílinn og leyfði þeim að sjá kraftinn í stóru dælunni á toppnum. Nemendur skoðuðu einnig sjúkrabíl að innan og prufuðu púlsmæli sem þar var. Það var samróma álit allra að frábærlega hefði verið tekið á móti hópnum og þetta var skemmtileg og fræðandi heimsókn.