Fullt hús stiga á Jólin heima

Jólatónleikarnir Jólin heima voru haldnir fyrir fullum sal í Menningarhúsinu Miðgarði sl. laugardagskvöld, haldnir af ungu skagfirsku tónlistarfólki sem áður höfðu haldið jólatónleika á síðasta ári í netstreymi. Til að gera langa sögu stutta tókust tónleikarnir afar vel og fá fullt hús stiga.
Á Facebook-síðu Jólin heima kemur fram að sökum þess hve vel tónleikarnir tókust í fyrra hafi verið ákveðið að halda þá aftur í ár og nú í Miðgarði þar sem gestir fengu að vera viðstaddir. Eina sem skyggði á fullkomna ánægju var að grímuskylda var allan tímann, þrátt fyrir að hver einasti maður í salnum hafði farið í hraðpróf og fengið neikvæða niðurstöðu auk þess sem flestir eru þríbólusettir. En það eru reglur yfirvalda og ekkert við því að segja og vonandi enginn annar en undirritaður sem lét það fara í taugarnar á sér.
Alla vega voru undirtektir gesta mjög góðar allt frá byrjun til enda og stóðu tónleikarnir fyllilega undir væntingum. Flutningur hins unga fólks sem á sviðinu stóð hverju sinni, hvort sem það söng eða lék undir, var yfir heildina mjög góður og ekki laust við að hárin hafi náð að rísa á höfðum þeirra sem því skarta, í einhverjum lögunum. Magni, hinn eini sanni, var leynigestur kvöldsins og klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Alltaf magnaður.
Einnig má hrósa allri umgjörð og tæknimálum, þó smá vandræði hafi verið með hljóðnema á köflum og smá flökt á ljósum. Það eru smámunir sem gestir létu ekki trufla sig.
Eins og áður segir fá tónleikarnir fullt hús stiga og eru tónleikarahöldurum, tónlistarfólki og öðrum sem að þeim komu þakkað fyrir góða skemmtun.
Að sögn Jóhanns Daða Gíslasonar, eins skipuleggjenda tónleikanna, var upplifunin alveg æðisleg. „Frábært að geta haldið tónleika fyrir framan fullan sal af fólki, eftir hafa haldið streymistónleika í fyrra var þetta bara geggjað. Við fundum frá fyrsta lagi góðar viðtökur frá fólkinu í salnum og hélst stemningin út alla tónleikana. Það voru um 300 manns sem gerðu sér fer í Miðgarð, eftir að hafa lagt það á sig að bíða í röð úti í kuldanum til að komast í hraðpróf.
Ég vil þakka öllum sem komu að tónleikunum á einn eða annan hátt fyrir alla aðstoðina og vinnuna sem þau lögðu á sig, án þeirra væri þetta ekki hægt. Einnig vill ég þakka öllum sem lögðu leið sína á tónleikana, þið voruð frábær! Vonandi er þetta komið til að vera,“ segir hann og bætir við: „Sjáumst aftur á næsta ári!“
Hér fyrir neðan má hlýða á flutning þeirra Rannveigar Stefánsdóttur og Inga Sigþórs Gunnarssonar á laginu Jólin koma með þér, á myndskeiði sem Svava Guðrún Sigurðardóttir tók upp og póstaði á Facebooksíðu sína, og gefur smá innsýn í stemningu kvöldsins.
Jólin heima: Rannveig Sigrún og Ingi Sigþór
Posted by Svava Guðrún Sigurðardóttir on Laugardagur, 11. desember 2021