Gleðilegt sumar

Það styttist vonandi í svona sumarstemningu. Sveitt mistur á vestanverðum Skaga með sýn yfir á Strandir. MYND: ÓAB
Það styttist vonandi í svona sumarstemningu. Sveitt mistur á vestanverðum Skaga með sýn yfir á Strandir. MYND: ÓAB

„Það er komið sumar...“ sungu Mannakorn um árið og það á við í dag. Í það minnsta er sumardagurinn fyrsti í dag og þó það sé kannski ekki sami stemmari fyrir þessum degi á þessari öld og var á þeirri síðustu þá fylgir deginum oftar en ekki bjartsýni og ylur í hjarta – já, eiginlega sama hvernig viðrar.

Það er útlit fyrir stillt veður í dag og þó hitastigin séu ekki mörg – kannski svona fjögur til sex – þá stefnir í góðan dag til að viðra sig aðeins og njóta.

Í tilefni vetrarloka og komandi sumars skellti Einar Kolbeinsson þessari vísu á Facebook-vegginn sinn í gær:

   Vorið er að verma sál,
   vakin sumarþráin,
   glittir loks í græna nál,
   gegnum sinustráin.

Og þessa vísu má finna á vegg hjá sr. Hjálmari Jónssyni í tilefni dagsins:

   Kaldur vetur vikinn er,
   vindar gerast blíðir.
   Gleðilegt sumar gefist þér
   og gæfusamar tíðir.

Feykir óskar lesendum gleðilegs sumars og gleði í hjarta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir