Gleðilegt sumar! – Leiðari Feykis

Þegar þessi pistill er skrifaður, á sumardeginum fyrsta, er 24 stiga hiti úti og að mestu heiðskýrt. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hlýindum og jafnvel að hitastigið muni stíga frekar upp. Hér er gróður vel á veg kominn í görðum og torgum enda vökvaðir reglulega. Helst til þurrt fyrir úthagagróður og hagi er enginn. Mannlífið er gott, fólk spókar sig á stuttbuxunum dag hvern og lætur sér líða vel og hótel og matsölustaðir eru við hvert fótmál. Ég er staddur á Tenerife.

Það þarf nú ekki að lýsa þeirri sólarparadís fyrir nokkrum manni enda flestir Íslendingar búnir að heimsækja eyjuna a.m.k. einu sinni á ævinni. Líkt og Ísland er Tenerife eldfjallaeyja með gróðursnauðum vikursandi og fallegum hraunmyndunum víða og þó sérstaklega á norðurströndinni, og þar með held ég að megi segja að samlíkingunni ljúki.

Á Íslandi má búast við breytilegu veðri milli dagshluta en hér er veðrið eins, dag eftir dag, viku eftir viku. Reyndar er hægt að upplifa annað hitastig, annað rakastig og jafnvel vindstyrk með því að ferðast um eyjuna, sem er þó ekki nema 2% af stærð Íslands. Önnur staðreynd, sem ég fann á Facebooksíðunni Svali á Tenerife, er að Kanaríeyjar allar eru um 7500 km2, eða nokkuð minni en Vatnajökull.

Síðasta vetrardag fór ég, ásamt fleirum, hringinn um Tenerife og upplifði þessi ólíku veðrabrigði, sem mér fannst ansi merkileg. Á norðurströndinni er mun meiri gróður enda rakara og hafði t.d. rignt daginn áður. Það kom mér á óvart að almenningssundlaug ein, sem við gengum framhjá, var tóm og sagði fararstjóri það vera vegna þess að það væri svo kalt á veturna, sumarið væri ekki komið. Þó var hitinn yfir 20 gráður. Eyjaskeggjar búa ekki svo vel, líkt og við Íslendingar, að hafa nægt neysluvatn hvað þá heitt hveravatnið sem fylla sundlaugar mörlandans.

Rafmagn á Tenerife er að langmestu leyti framleitt með dísilrafölum, nokkuð margar vindmyllur hafa verið reistar undanfarin misseri og eitthvað sést af sólarsellum, sem kemur mér líka á óvart að ekki skuli vera meira af á þessum sólríka stað. Var mér sagt að ástæðan væri sú að dísilolían er niðurgreidd af spænskum skattgreiðendum svo ekki borgaði sig að fjárfesta í þeim búnaði sem breytir sólargeislum í raforku.

Hér er verðlag lágt og hægt að bruðla með gjaldeyrinn eins og enginn sé morgundagurinn. Hann borgum við seinna þegar VISA reikningurinn kemur. Hann kemur löngu eftir að heim er komið, þegar hitamælirinn nær ekki að sýna tveggja stafa tölu, þegar rignir lárétt, þegar verðbólgan hefur vaxið vegna tásumynda af Tene, þegar þú ert farinn að taka þátt í skoðanaskiptum á ný hvort virkja eigi vatnsföll eða reisa vindmyllur eða hvort leyfa eigi raforkunni að flæða á milli landshluta.

Eigum við að samþykkja hótelbyggingu á Flæðunum?

Góðar stundir!
Páll Friðriksson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir