Grettir sterki kominn á bók
Út er komin bókin Grettir sterki með 16 brotum úr Grettis sögu Ásmundarsonar og jafnmörgum teikningum Halldórs Péturssonar. Myndirnar sýna atburði úr lífi Grettis og koma nú fyrst fyrir sjónir almennings á bók. Teikningar Halldórs við söguna um Gretti sterka eru með síðustu teikningum sem hann vann.
Sagan af hinum gæfusnauða Gretti er margföld og þéttofin ferðasaga, allt frá heiðnum tíma fram í helgan stein, um íslenskar miðaldabókmenntir, skráðar og óskráðar, frá Noregi til Íslands og þaðan til Miklagarðs, hringferð um Ísland.
Í ítarlegum inngangi veltir Örnólfur Thorsson fyrir sér byggingu sögunnar og stöðu hennar meðal Íslendinga sagna. Þessi greinargóði og upplýsandi formáli ásamt hinum glæsilegu myndum gera bókina einkar áhugaverða fyrir þá sem ekki þekkja efnið fyrirfram en vilja kynnast spennandi heimi íslenskra fornbókmennta.
Texti bókarinnar er á 3 tungumálum: íslensku, ensku og þýsku. Hún er því tilvalin gjöf til vina erlendis. Bókin er gefin út í samvinnu við Grettistak ses með styrk frá Menningarráði Norðurlands vestra.