Gullkorn frá Murr og þrjú góð stig í hús

Murr tekur við boltanum. MYND: ÓAB
Murr tekur við boltanum. MYND: ÓAB

Stólastúlkur spiluðu þriðja heimaleik sinn í Lengjudeildinni í kvöld, enn einn leikurinn í ísköldum maímánuði og stuðningsmenn flestir frosnir við stúkuna. Í kvöld mættu Haukar úr Hafnarfirði í heimsókn og reyndist leikurinn ekki sérlega rismikill. Kannski var smá skjálfti í heimastúlkum eftir tap heima gegn HK í síðustu umferð, í það minnsta var fátt um færi framan af leik en eitt gullkorn frá Murr dugði til sigurs. Lokatölur 1-0.

Lið Tindastóls fór ágætlega af stað í leiknum, hélt boltanum vel og reyndi að byggja upp spil. Úrslitasendingarnar voru ekki detta á rétta staði og oft var eins og það vantaði að fylla betur í teiginn. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik og markalaust í hálfleik.

Heldur jókst hraðinn í síðari hálfleik þegar lið Tindastóls sótti í átt að Nöfunum og smám saman jókst pressan. Stólastúlkur fengu nokkrar hornspyrnur en Þóra Rún Óladóttir í marki Hauka var seig, það var eins boltinn sogaðist í hendurnar á henni, og hún greip vel inn í leikinn hvað eftir annað. Amber var að sjálfsögðu í stuði á hinum endanum en hún hafði minna að gera, þurfti þó að láta til sín taka annað veifið og kannski hafði hún heppnina með sér þegar dómari leiksins taldi hana ekki hafa brotið af sér í tæklingu innan teigs. Stuttu síðar fiskaði Aldís María hornspyrnu. Hannah sendi stutt á Maríu sem skildi boltann eftir fyrir Hönnuh sem náði fastri sendingu inn á teiginn og þar reis Murr hæst og náði frábærum skalla sem sveif óverjandi í fjærhornið.

Haukavörnin opnaðist nokkuð eftir þetta enda reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að jafna leikinn. Murr og Aldís María fengu góð færi en skotskórnir höfðu greinilega verið skildir eftir heima og ekki tókst Stólastúlkum að bæta við marki. Haukarnir sköpuðu sér fá færi en Amber þurfti þó að verja eitt tvö skot og grípa nokkrar hættulegar sendingar fyrir markið.

Það var mikilvægt fyrir Tindastólsliðið að komast á sigurbraut á ný en Stólastúlkur eru með níu stig eftir fjóra leiki. Það má kannski hafa áhyggur af því að það gengur erfiðlega að skora en vörnin virkar traust. Haukarnir hafa náð í einn sigur það sem af er, gegn botnliði Fylkis, en liðið spilaði ágætan fótbolta í kvöld en eins og það vantaði bitið fram á við.

Tindastóll tekur á mótli Íslandsmeisturum Vals í Mjókurbikarnum á laugardaginn og það verður strembinn leikur, enda valin kona í hverri stöðu hjá Pétri Péturs. Fimmtudaginn 2. júní mæta Stólastúlkur síðan í Fossvoginn og spila gegn góðu Víkingsliði sem er með níu stig, líkt og Tindastóll, en hefur skorað mikið af mörkum það sem af er. Kannski rétt að skrúfa fyrir þá uppsprettu?

„Heilt yfir mjög sáttur við þessa byrjun á mótinu“

Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Donna þjálfara að leik loknum.

Hvað fannst þér um leikinn í kvöld, hvað gerði útslagið ? Við vorum sterkara liðið heilt yfir. Vorum ákveðnar í hápressunni og unnum oftast boltann af þeim fljótt. Við fengum eins og í síðasta leik fullt af færum til að skora en illa gekk að klára. Það er hins vegar frábært að við erum að skapa okkur öll þessi færi, því fleiri mörk fara að detta. Ég er virkilega ánægður með vinnuframlagið, varnarleikinn og sköpuð færi. 1-0 sigrar eru frábærir.

Fjórir leikir búnir í deildinni, þrír sigrar og eitt tap – ertu sáttur og hvað vantaði upp á gegn HK? Ég er heilt yfir mjög sáttur við þessa byrjun á mótinu. Við erum að gefa mjög fá færi á okkur og sóknarleikurinn er i mótun og verður alltaf betri og betri. Auðvitað vildum við og i raun áttum við að vinna HK, en við höldum áfram og gefum allt i þetta.

Bikarleikur gegn Val á laugardag – ertu búinn að plotta leiðina til sigurs? Laugardagurinn verður mjög skemmtilegur. Vissulega krefjandi verkefni en í fótbolta er allt hægt og við munum auðvitað vera með plan til að sigra Val. Engin tilgangur að standa i þessu örðuvísi en að reyna að vinna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir