Háholt hýsir sumarbúðir í sumar

Háholt mun væntanlega iða af lífi á ný en áætlað er að reka þar sumarbúðir í sumar. Mynd: PF.
Háholt mun væntanlega iða af lífi á ný en áætlað er að reka þar sumarbúðir í sumar. Mynd: PF.

Háholt í Skagafirði fyllist af lífi á ný eftir að hafa staðið tómt í nokkur misseri eftir að starfsemi sem þar var unnið með Barnastofu lagðist af. Áætlað er að í sumar verði reknar sumarbúðir fyrir ungmenni með ADHD og eða einhverfu. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, undirrituðu samstarfssamning í Háholti sl. miðvikudag en Vilmundur Gíslason, framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, átti ekki heimangengt og ritar nafn sitt síðar undir plaggið.

Sumarbúðirnar verða starfræktar frá júní til ágúst og munu allt að 20 ungmenni njóta dvalarinnar saman í 1 til 2 vikur í senn. Áætlað er að taka á móti 40 til 80 ungmennum í Háholti í sumar.

„Hér erum við að undirbúa að setja af stað sumarbúðir, í samstarfi við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, fyrir börn sem eru að glíma við einhverfu eða ADHD. Meiningin er að í þessu góða samstarfi milli Svf. Skagafjarðar og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, með stuðningi ráðuneytisins, að þá getum við gert 40 til 80 börnum mögulegt að koma hingað og upplifa Skagafjörð og þau ævintýri sem hann hefur upp á að bjóða, allt frá fjöru til fjalla,“ segir Ásmundur Einar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, undirrituðu samstarfssamning í Háholti sl. miðvikudag Hann segir þetta verkefni vera hluta af aðgerðaráætlun vegna Covid 19 þar sem þau börn sem búðirnar eru ætlaðar hafa verið að glíma við mikla félagslega erfiðleika og áskoranir í tengslum við Covid 19. „Ríkisstjórnin er með sérstaka fjárveitingu til þess að fara í sértækar aðgerðir til þess að gera þessum einstaklingum, börnum og eldri borgurum, og fleirum sem hafa verið að glíma við þetta ástand, möguleika á aðgerðum núna í sumar og þetta er hluti af því. Þannig að það má segja að hér séum við að slá nokkrar flugur í einu höggi,“ segir Ásmundur Einar.

Er þetta til frambúðar eða bara í sumar?
„Við byrjum á að setja þetta af stað í sumar og sjáum hvernig til tekst, sjáum hvernig ásóknin verður, reynslan og ánægjan og hvernig þetta samstarf á milli Skagafjarðar og Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra gengur sem ég bind vonir við. Ef þetta gengur vel þá er besta auglýsingin ánægð börn og þá getum við skoðað framhaldið. Nú reynir á hvernig við í sameiningu getum gert þessa upplifun sem besta og þá getum við skoða þetta til frambúðar í framhaldinu,“ segir Ásmundur Einar.

Sigfús Ingi Sigfússon segir að þetta verkefni muni skapa um 20 stöðugildi í vaktavinnu í sumar en áætlað er að hefja starfsemi um miðjan júní. „Við förum núna að koma húsnæðinu í stand og auglýsa störf en fyrsti hópur kemur vonandi fyrir 17. júní og ná því þjóðhátíðardeginum í Skagafirði. Ég er gríðarlega ánægður með þetta og fagna þessu,“ segir Sigfús Ingi.

Ásmundur Einar Daðason, ráðherra, Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri, Bjarni Jónsson, oddviti VG og óháðra í Svf. Skagafirði, Herdís Sæmundardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusvið, Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknarflokks, Gísli Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðismanna, Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri. Mynd: PF.

Með verkefninu, segir hann, er verið að mæta þörf sem klárlega sé til staðar. „Þetta hefur verið í umræðunni og styrktarfélagið auglýsti þetta úrræði á föstudaginn síðasta og á mánudaginn voru komnar nærri 60 umsóknir frá fólki af öllu landinu sem sýnir að þörfin er brýn,“ segir Sigfús sem aðspurðu segist ánægður með að Háholt sé komið með hlutverk á ný.

„Já mjög ánægjulegt, því þetta var náttúrulega sérbyggt húsnæði fyrir þá starfsemi sem það hýsti í áraraðir. Við höfum lengi leitað að því að þetta húsnæði fengi viðeigandi sess aftur og það kæmi starfsemi á ný. Þannig að við fögnum þessu, mjög góður áfangi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir