„Hér sé Guð“: Gest ber að garði - Pistill Byggðasafns Skagfirðinga

Blöndukanna BSk-464 frá Merkigarði. Mysa (sýra) sem varð til við skyrgerð var mikils metin. Hún þótti best þegar hún var orðin tveggja ára gömul og eldsúr og var m.a. notuð til drykkjar. Þá var blandað einum hluta sýru í elleftu hluta vatns og var það kallað tólftarblanda. Blandan var oft borin fram í blöndukönnu eins og þessari. Kannan er varðveitt í Byggðasafni Skagfirðinga.
Blöndukanna BSk-464 frá Merkigarði. Mysa (sýra) sem varð til við skyrgerð var mikils metin. Hún þótti best þegar hún var orðin tveggja ára gömul og eldsúr og var m.a. notuð til drykkjar. Þá var blandað einum hluta sýru í elleftu hluta vatns og var það kallað tólftarblanda. Blandan var oft borin fram í blöndukönnu eins og þessari. Kannan er varðveitt í Byggðasafni Skagfirðinga.

Gestrisni er dyggð sem löngum hefur verið í heiðri höfð á Íslandi. Að úthýsa ferðalöngum, gestum og þurfandi fólki, að neita um skjól eða ætan bita og að sýna nísku þótti meðal verstu glæpa. Þetta má lesa úr fjölda sagna um fólk sem varð úti eftir að hafa verið úthýst eða neitað um húsaskjól. Gekk það þá stundum aftur sem draugar og ásótti heimilisfólk grimmilega. Hér áður fyrr virðast vissar serimóníur hafa loðað við gestamóttöku, til dæmis var ekki sama hvernig heilsast var og kvatt og viss regla var á athæfi og röð atferlis. Jónas Jónasson frá Hrafnagili segir skemmtilega frá gestamóttöku í bókinni Íslenskir þjóðhættir, en siðirnir þykja sumir hverjir ansi framandi nú til dags. 

Fyrirboðar gestakomu
Gestagangur einskorðaðist ekki aðeins við þá stund þegar gestur gekk í hús, heldur voru ýmsir fyrirboðar sem sögðu til um gestakomur, t.d. ef svefn sótti hart að einhverjum á heimilinu og ef allt í einu fannst undarleg lykt s.s. af brennivíni. Sagt var að hegðun heimilisdýranna gæti verið fyrirboði gesta. Ef hundar sneru sér liggjandi að baðstofuhurðinni og lögðu trýnið á hægri fót var hinn ókomni gestur vandaður, en á vinstri fót væri gesturinn síðri. Sneru hundar skottinu til dyra var von á óþokka.

Ef fluga, svokölluð gestafluga, ásótti einn heimilismann umfram annan átti hann von á gesti og ef suðið í katlinum var óvenju hátt við kaffihitunina var einnig gesta von. Sagt var að hverjum manni fylgdi fyrirbæri sem jafnan fór á undan einstaklingnum og gerði vart við sig. Það gátu verið skottur eða mórar sem þóttu jafnan illar fylgjur, en einnig voru aðrar og meinlausari fylgjur sem sumir gátu séð og þegar þær gerðu vart við sig var hægt að segja fyrir um hver var að koma. Yrði slíkra fyrirboða vart þótti betra að sópa gólf og vera við öllu búinn.

Gestakoma
Ef gest bar að garði í björtu var venja að hann berði á bæjarþilið (bæjardyr) þremur höggum. Kæmi enginn til dyra var barið öðru og þriðja sinni. Oft heyrðist illa inn í torfbæi vegna langra ganga og sökum þess hve óhljóðbærir þeir voru. Jafnframt gat hljóðið í rokkum og öðrum verkfærum yfirgnæft önnur hljóð. Óhætt var talið að fara til dyra ef höggin voru þrjú, en varasamt ef þau voru eitt eða tvö því þannig börðu draugar og óvættir að dyrum. Eftir rökkur tíðkaðist norðanlands að guða á glugga, þ.e. að gera vart við sig á glugga baðstofunnar með því að segja „hér sé guð“. Oftast var heilsast með kossi og voru kveðjurnar oft á þennan veg „Sæll/sæl vertu“.

Væru komu- og heimamaður kunningar var heilsast með kossi og handabandi og kveðjunni „Sæll og blessaður“. Jónas skefur ekkert utan af smáatriðum í umfjöllun sinni og segir: „Stundum tóku menn þá ofan húfuna eða höfuðfatið með vinstri hendi, köstuðu hárinu frá enni sér með dálitlu viðbragði með höfðinu og kysstust svo.“[1]

Er gestur gekk inn eða var leiddur inn í baðstofu heilsaði hann öllu heimilisfólkinu með kossi, þá var honum boðið til sætis og fram voru bornar veitingar, matur, drykkur (t.d. sýrublanda, borin fram í blöndukönnu, sjá meðfylgjandi mynd) og kaffi. Venja var að signa sig fyrir matinn: „Guðlaun matinn / gefið mér í guðsfriði matinn“ og svarað „Guð blessi þig“. Að leifa mat þótti kurteisi, enda sýndi það að vel hafði verið skammtað og var það kallaður gestasiður. Þá var þakkað fyrir sig.

Kveðjustund
Þegar gestur fór að sýna á sér fararsnið var venja að bóndi fylgdi honum til dyra, sumstaðar var sú trú að ef gestur gengi einn út færi hann með vitið úr bænum. Gestur kvaddi alla með kossi, húsfreyju með tveimur, annan sem kveðju og hinn fyrir velgjörðirnar. Ef menn þökkuðu húsbónda fyrir kaffið á undan húsfreyjunni átti hann að fóðra fyrir hana lamb næsta vetur. Kveðjurnar voru ýmist: „Vertu nú blessaður og sæll / feginn vildi ég eiga þig að“ og svarað „Guð veri með þér / Vertu sæll / farðu vel“.[2]  

Inga Katrín D. Magnúsdóttir

Áður birst í 12 tbl. Feykis 2019.



[1] Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 225-226. 

[2] Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir (1934). (Einar Ólafur Sveinsson bjó til prentunar). Bókaútgáfan Opna, Reykjavík. Bls. 224-229.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir