Hljómsveitin Herramenn rigga upp tónleikum :: „Vonumst til þess að okkar fólk mæti“

Á sviði í Árósum í Danaveldi árið 1989 en það er einn af hápunktum sveitarinnar. Myndir úr fórum hjómsveitarmeðlima.
Á sviði í Árósum í Danaveldi árið 1989 en það er einn af hápunktum sveitarinnar. Myndir úr fórum hjómsveitarmeðlima.

Í ár eru 35 ár síðan safnplatan Bongóblíða kom út en þar átti hin fornfræga hljómsveit af Króknum, Herramenn, fjögur lög, þau fyrstu sem þeir tóku upp og gáfu út. Bandið var ekki í slæmum félagsskap því aðrar landsþekktar hljómsveitir áttu lög á plötunni líkt og Greifarnir, Stuðkompaníið, Sálin hans Jóns míns, hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar og Jójó frá Skagaströnd.

Að þessu tilefni ákváðu Herramenn að rigga upp skemmtilegri kvöldstund í Miðgarði þann 6. maí þar sem farið verður yfir lög sveitarinnar og segir á Tix.is, þar sem hægt er að tryggja sér miða, að ekki sé ólíklegt að lög sem vinsæl voru á sveitaböllum hjá bandinu á þessum tíma fái að fljóta með. Þá verða rifjaðar upp skemmtilegar sögur, sannar og lognar.

Hljómsveitina Herramenn skipa þeir Árni Þór Þorbjörnsson bassaleikari, Birkir L. Guðmundsson Jullum, hljómborðsleikari, Svavar Sigurðsson gítarleikari, Kristján Gíslason söngvari og Karl Jónsson trommuleikari. Á þann síðastnefnda sendi Feykir spurningar til að forvitnast frekar um sveitina, starfsemi hennar og viðburðinn væntanlega, sem strax hefur vakið áhuga gamalla sveitaballagesta sem væntanlega munu ekki láta sig vanta í menningarhúsið.

„Við ákváðum félagarnir að stofna hljómsveit árið 1982, Bad Boys að nafni. Við höfðum flestir einhvern bakgrunn úr tónlistarskóla. Ég spilaði t.d. á trompet, Árni á píanó, Svavar blés í enskt horn og Birkir var á píanó. Kristján kom svo í Skagafjörðinn með hljómborðsgrunn. En það gefur auga leið að ekki stofnuðum við klassískan kvintett þannig að þegar við vorum búnir að ákveða að stofna hljómsveit, var komið að því að ákveða á hvaða hljóðfæri við ætluðum að spila. Svavar lenti á gítarnum, Árni á bassanum, ég valdi trommurnar og það má segja að þeir Kristján og Birkir hafi verið á „sínum“ hljóðfærum.

Við höfðum frábærar fyrirmyndir á þessum tíma, annars vegar hljómsveitina Medium sem í voru Óskar Páll Sveinsson, Sigurður Ásbjörnsson heitinn, Hilmar Valgarðsson og Páll nokkur Friðriksson. Hins vegar var hljómsveitin Týrol, með eldri gaurum í, þeim Gunnar Inga Árnasyni, Eiríki Hilmissyni, Ægi Ásbjörnssyni, Margeiri Friðrikssyni svo einhverjir séu nefndir. Það æxlaðist þannig að við fórum í samstarf með Medium, þar sem þeir áttu græjur en við gátum endalaust útvegað æfingahúsnæði í bænum,“ rifjar Kalli upp.

Hann segir bandið hafa æft stíft þarna síðsumars og um haustið og í nóvember 1982 var blásið til tónleika þar sem sveitin flutti ein 10-11 frumsamin lög. „Tónleikarnir voru haldnir í félagsaðstöðu Gaggans sem átti að byggja upp og rann aðgangseyririnn – eða nánast allt af honum í uppbyggingarsjóðinn. Við tókum smá toll, leigðum okkur vídeótæki og tvær spólur til að verðlauna okkur fyrir vel unnin störf.“

Músíktilraunir

Drengirnir í Bad Boys tóku þátt í Músíktilraunum 1983 þar sem þeir komumst í úrslit en það var árið sem Dúkkulísurnar unnu. Seinna áttu þeir svo eftir að taka þátt í Músíktilraununum aftur, þá undir merkjum Metan og síðan Herramanna.

„Í þau skipti lentum við í öðru sæti á eftir Stuðkompaníinu og Jójó. Metan varð til eftir að tónlistarlegur ágreiningur hafði grafið um sig í Bad Boys og skildu leiðir á tímabili. Birkir og Kristján fóru í aðra áttina en við Svavar og Árni í hina. Við fengum Kristinn Baldvinsson til liðs við okkur og skömmu síðar náðust sættir og við urðum allir saman á ný, auk Kidda. Það var sú útgáfa Metan sem tók þátt í Músíktilraununum 1987. Um vorið 1988 líklega, hætti Kiddi og við tókum þá upp nafnið Herramenn.“

Hvaða lög voru vinsæl þá og hvernig gekk að æfa þau upp?
„Við náðum upp 7-8 lögum, þéttum og flottum, sem við spiluðum m.a. í Músíktilraunum, lög sem flest rötuðu síðar á plötur. En þarna var gersemi að mínu mati sem heitir Spurðu mig ei, sem því miður hefur aldrei komið út og mér persónulega þykir það mikil synd. Þetta lag var mjög vinsælt hjá okkar fólki á árdögum hljómsveitarinnar.“

Sveitaballamenningin var allsráðandi á þessum tímum og léku Herramenn víða um land og segir Kalli að sveitaböllin hafi verið tækifæri fyrir íslenskar hljómsveitir til að koma sér á framfæri og efni sínu. „Við helltum okkur út í þennan bransa og það er ótrúlegt til þess að hugsa í dag hvernig þetta gekk fyrir sig. Þá var bara lagst í símann og félagsheimili bókuð út um allar koppagrundir. Stundum var um fasta ráðningu að ræða á einhverjum stað og þá var reynt að bóka hús á leiðinni þangað og spilað. En stundum var bara bókað upp á von og óvon og sénsar teknir. Við áttum svo sem engin sérstök svæði en fengum alltaf góða aðsókn í Sævangi á Ströndum og víðsvegar á Norðurlandi. Áttum gott „fan-base“ sem sótti böllinn okkar vel.“

Hvað starfaði sveitin lengi?
„Ætli ég hafi ekki verið fyrstur til að hætta, líklega árið 1990, og svo smám saman tíndist úr bandinu og nýir gengu inn í það. Vörumerkið var ágætlega kynnt og Kristján fékk með sér nýja spilara í einhvern tíma á eftir. Svo áttu Herramenn sér framhaldslíf þegar við Kristján slógumst í hópinn með Herði G. Ólafssyni, Bassa, og Ægi Ásbjörns, fyrir eitthvað eitt ball í Bifröst. Úr því varð hljómsveitin Styrming sem gaf út tvö lög. Síðan hætti Ægir og Svavar kom inn og að lokum kom Birkir inn í það líka og því var ákveðið að taka upp Herramannanafnið á nýjan leik þar sem 4/5 Herramanna voru hvort sem er komnir um borð. Sú útgáfa starfaði í nokkur misseri og ætli ég hafi ekki aftur verið fyrstur til að hætta í þeirri útgáfu líklega 1993.

Spilað fyrir Tuborg Grön

Kalli segir, aðspurður um skemmtilega bransasögu, að þær væru margar til sem nánar verður farið í á tónleikunum en minnist á einn af hápunktum sveitarinnar árið 1989 þegar Herramönnum var boðið að spila á norrænum ungdomstónleikum í Álaborg ásamt 199 öðrum hljómsveitum. Þá var sveitin send til Danmerkur á vegum Samtaka íslenskra félagsmiðstöðva til. „Við þurftum að spila í öllum félagsmiðstöðvum höfuðborgarsvæðisins í aðdraganda ferðarinnar sem var okkur dýrmæt reynsla. Nú ferðin átti að sjálfsögðu að einkennast af siðprýði og ungmennafélagsanda og var okkur settur fararstjóri sem vildi hafa þau plön í hávegum. Þetta var árið sem bjórinn var leyfður þann 1. mars og um leið og við höfðum tékkað okkur inn í flugstöð Leifs Eiríkssonar þustum við bjórþyrstir á barinn til að bragða hinn forboðna drykk en við vorum allir á tuttugasta aldursári, nema Árni sem var árinu yngri.

Eðlilega kom á fararstjórann okkar sem ítrekaði þá stefnu Samtaka íslenskra félagsmiðstöðva að allar ferðir og skemmtanir á þeirra vegum væru áfengislausar. Við létum það sem vind um eyru þjóta, töldum að trauðla yrði hætt við ferðina úr þessu og héldum áfram bjórsmökkuninni. Úr varð ansi eftirminnileg og skemmtileg ferð. Við komuna til Kaupmannahafnar tóku á móti okkur Siggi Ossíar og Ægir Ásbjörns sem þar bjuggu um tíma. Þar var ekki í kot vísað og fyrsta kvöldið sýndu þeir okkur helstu rangala borgarinnar. Á leið til Álaborgar áðum við í Árósum þar sem settir voru upp tónleikar á pöbb sem Íslendingar í borginni voru duglegir að sækja.

Launin okkar voru tveir kassar, 48 flöskur af Tuborg Grön og máttum við ekki fara út úr húsi með launin. Bjórþyrstir Íslendingarnir tóku launum þessum vel og gerðu góð skil. Gaman að segja frá því að okkur var boðið til veislu hjá Íslendingum í borginni þar sem m.a. Jón Magnússon heitinn og Steinn Leó Sveinsson tóku á móti okkur ásamt fjölskyldum sínum. Þarna var líka Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður með meiru, sem slóst í för með okkur sem Tour Manager til Álaborgar. Við spiluðum á besta tíma á stærsta sviðinu í tónleikahöllinni þar og þetta var frábær upplifun í alla staði. Það var eitthvað öðruvísi við að fara erlendis til að spila lögin okkar og við nutum þess í botn.“

Hversu mörg lög rötuðu á plötur og hvað geturðu sagt mér um þau?
Við höldum einmitt upp á 35 ára útgáfuafmæli fyrstu laganna okkar sem komu á safnplötunni Bongóblíðu þann 6. maí nk. í Miðgarði. Það voru lögin Nótt hjá þér og Í útvarpi sem voru á vínylútgáfu plötunnar, en á spólunni bættust við lögin Baðferðin eftir Ægi Ásbjörns og Gylltar strendur. Nótt hjá þér varð okkar vinsælasta lag, en það náði m.a. öðru sæti á Vinsældarlista Rásar tvö og í sömu viku var lagið Í útvarpi í 12. sæti eða þar um bil. Bongóblíða kom út í júlímánuði 1988.

Þarna hafði ég slitið krossband „hið fyrsta“ í hné og því var notast við „Jagahítsí“ trommuheila við upptökur laganna, sem Óskar Páll Sveinsson og Diddi fiðla sáu um að koma á teip. Síðar þetta sama ár kom út safnplatan Frostlög þar sem við áttum tvö lög, Enginn og Segðu mér. Fengu þau góða spilum. Kiddi Balda hljóp í skarðið fyrir mig um þær mundir þar sem ég hafði undirgengist aðgerð á hné og var ekki spilhæfur. Þetta voru einu lögin sem þessi hópur kom út. Ef við værum í þessum sporum í dag með alla þá tækni sem hefur einfaldað upptökur og gert þær ódýrari hefðum við örugglega gefið út mun fleiri lög.“

„Einir sér eða í smærri hópum“

Nú á að rigga upp skemmtilegri kvöldstund þar sem farið verður yfir lög sveitarinnar. Hvað geturðu sagt mér um það?
„Þetta hefur staðið til lengi hjá okkur. Við höfum komið fjórir saman líklega tvisvar sinnum, án Birkis og í okkar huga fannst okkur alltaf að við ættum þetta inni og jafnvel skulduðum sjálfum okkur að gera þetta. Þessar fyrirætlanir fóru auðvitað á ís í Covid og eftir að öllum þeim hömlum lauk var kominn tími til að skoða þetta á ný. Við ákváðum þetta bara í mars og gáfum okkur stuttan tíma til að koma þessu á legg. En það var talsverður höfuðverkur að finna húsnæði sem hentaði en að lokum var það Miðgarður sem varð fyrir valinu.

Þetta kvöld ætlum við að búa til góða partýstemningu þar sem við spilum tóndæmi af fyrstu lögum hljómsveitarinnar og förum svo fram eftir ferlinum þegar líða tekur á kvöldið. Við munum t.d. taka eitt lag úr söngleik sem við skrifuðum en aldrei var settur upp. Alveg frábært lag sem okkur hefur alla tíð þótt vænt um. Við ætlum að taka nokkur af okkar uppáhalds cover-balllögum en uppistaðan verður prógrammið sem við spiluðum í Danmörku sem eru okkar þekktustu lög. Inni á milli ætlum við að segja einhverjar sögur sannar og lognar og spjalla við fólkið í salnum, tökum jafnvel á móti frammíköllum.

Við ætlum m.a. að minnast Einars Braga Bragasonar saxófónleikara sem lést fyrir nokkrum árum langt fyrir aldur fram. Hann var hvað þekktastur fyrir að vera í Stjórninni en spilaði með okkur í öllum Bongóblíðulögunum á sínum tíma. Góður drengur og frábær tónlistarmaður sem hafði mikil áhrif á okkur. Við erum svo heppnir að eiga saxófónleik hans á bandi og munum því njóta liðsinnis hans í alla vega einu lagi.“

En það er ekki eins og hljómsveitarmeðlimir geti bara gengið á hljómsveitaræfingu, búsettir hver í sínu sveitarfélaginu og jafnvel í öðru landi. Forvitni blaðamanns er vakin hvernig æfingum verði háttað fyrir þetta gigg?

„Nú, við æfum bara „ýmist einir sér eða í smærri hópum,““ segir Kalli léttur og heldur áfram: „Gömlu teipin með Bongóblíðulögunum fundust við húsleit hjá einum okkar og í fyrra voru þau „bökuð“ og sett á stafrænt form. Kristján hefur gert upptökurnar þannig úr garði að við getum æft okkar part í þeim, en svo hefur verið sett upp skýjamappa með öllu því sem við ætlum að taka þarna. Þeir hittust þrír syðra Kristján, Árni og Svavar og fóru yfir nokkur lög og svo ætlum við að hittast allir saman á fimmtudagsmorgninum 4. maí og hefja æfingar saman tveimur dögum fyrir tónleikana. Það verður stíft æft fyrir tónleikana til að slípa bandið saman.“

Við hverju mega gestir búast í Miðgarði þann 6. maí?
„Það má búast við skemmtilegu kvöldi þar sem blandað verður saman alvöru og gríni, góðum sögum og lögum sem hafa fylgt okkur í gegn um tíðina. Þetta verður tekið mátulega alvarlega, við ætlum að vanda okkur í spilamennskunni og koma tónlistinni vel frá okkur en fyrst og síðast vonast ég til að fólk sjái þarna litla stráka – æskuvini sem haldið hafa sambandi í öll þessi ár og koma nú saman til að minnast góðra tíma ásamt fólkinu okkar frá þessum tíma, vinum og fjölskyldum. Þegar við lítum til baka erum við fullir þakklæti yfir því að hafa fengið tækifæri til að rata þessa tónlistarbraut og við vonumst til þess að okkar fólk mæti á tónleikana og taki þátt í þeim með okkur.“

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2023.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir