HSN á Sauðárkróki tekur við sjúklingum frá Landspítala

Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki. Mynd: PIB.
Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki. Mynd: PIB.

Greint var frá því í gær að Landspítalinn hafi verið settur á neyðarstig þar sem mikið álag hefur lengi verið þar innan húss og mjög vaxandi undanfarnar vikur, eftir því sem fram kemur á heimasíðu hans. Til að létta undir hefur verið ákveðið að flytja sjúklinga þaðan á aðrar heilbrigðisstofnanir á landinu m.a. á Sauðárkrók.

„Eins og kunnugt er hefur álag verið mikið á Landspítala lengi og mjög vaxandi undanfarnar vikur. Það á sér margar skýringar en fyrst ber að nefna mikla og hraða útbreiðslu á Covid-19 í samfélaginu sem og innan spítalans en nú er svo komið að yfir 100 starfsmenn geta ekki mætt til vinnu og sinnt sjúklingum vegna COVID smits,“ segir á landspitali.is en annar eins hópur er í sóttkví. Vegna þessa hefur verið gripið til þess neyðarúrræðis að kalla starfsmenn inn til vinnu sem skilgreindir eru í sóttkví að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá eru flest þau sérútbúnu legurými, sem ætluð eru fyrir sjúklinga með COVID, í notkun og ekki laus fyrir aðra og innlögnum á spítalann vegna þeirra farið fjölgandi. Nú hafa bæst við smit sem hafa greinst óvænt innan spítalans t.d. á bráðamóttökum, hjartadeild, Landakoti og fleiri deildum.

Heilbrigðisráðuneyti, Sjúkratryggingar Íslands, forstjórar heilbrigðisstofnana um landið og forstjóri Landspítala eiga í samstarfi um flutning sjúklinga sem geta lokið sjúkrahúslegu eða endurhæfingu á öðrum heilbrigðisstofnunum og munu þær taka á móti 30 sjúklingum til að létta álagi af Landspítala.

Um klukkan þrjú í dag lenti sjúkraflugvél Mýflugs 
á Alexandersflugvelli með tvo sjúklinga sem fluttir
voru á heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Mynd: PF.

Ákveðið hefur verið að Heilbrigðisstofnun Norðurlands taki við sex þeirra og segir Örn Ragnarsson, framkvæmdastjóri lækninga, að þrír fari á Húsavík og jafnmargir á Sauðárkrók og eru tveir þeirra væntanlegir á Krókinn í dag.

Farsóttanefnd og viðbragðsstjórn hafa þungar áhyggjur af stöðunni í faraldrinum enda fordæmalaus fjöldi smita sem greinist á degi hverjum og má búast við innlögnum í kjölfarið á því. „Mönnun er mikil áskorun en vonir standa til að rýmkist um legurýmin með flutningum sjúklinga á aðrar heilbrigðisstofnanir. Mikilvægt er að allir leggist á eitt um að það verkefni gangi vel fyrir sig,“ segir á vef landspítala.

Fleiri fréttir