Hvet alla til að gera sér glaðan dag og eiga stund í Bifröst :: Jóhanna S. Ingólfsdóttir skrifar

Kristján Örn Kristjánsson, Elva Björk Guðmundsdóttir, Kristey Rut Konráðsdóttir, Herdís María Sigurðardóttir og Inga Dóra Ingimarsdóttir í hlutverkum sínum. Mynd tekin á æfingu Á svið. Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.
Kristján Örn Kristjánsson, Elva Björk Guðmundsdóttir, Kristey Rut Konráðsdóttir, Herdís María Sigurðardóttir og Inga Dóra Ingimarsdóttir í hlutverkum sínum. Mynd tekin á æfingu Á svið. Mynd: Gunnhildur Gísladóttir.

Leikfélag Sauðárkróks frumsýndi verkið Á svið eftir Rick Abbot í þýðingu Guðjóns Ólafssonar og í leikstjórn Ingrid Jónsdóttur þann 30. apríl og fékk ég þann heiður að sitja frumsýningu.

Á svið er gamanleikur þar sem leikarar leika leikara sem eru í óðaönn að setja upp sýningu. Við fáum að fylgjast með leikurum, leikstjóra, tæknimanni/leikmyndasmið og sviðsmanneskju, sem þó virðist hafa hin ýmsu hlutverk, taka lokaæfingu, generalprufu og frumsýningu. Í öllu þessu er líka handritshöfundurinn af þessu ágætis verki sem virðist vilja skipta sér óþarflega mikið af ferlinu og uppsetningu verksins.

Leikarar allir stóðu sig með mikilli prýði, hjónin Hinrik og Pála, sem eru leikin af Guðbrandi J. Guðbrandssyni og Ingu Dóru Ingimarsdóttur, voru mjög trúverðug hjón þar sem hún var fyrirferðamikil díva og hann lítillátur eiginmaður. Yngra fólkið á sviðinu þau, Villi, Fjóla, Snorri og Malla, leikin af Eysteini Ívari Guðbrandssyni, Kristey Rut Konráðsdóttur, Inga Sigþóri Gunnarsyni og Herdísi Maríu Sigurðardóttur, stóð sig með miklum sóma. Strákarnir áttu frábæran leik, sérstaklega þegar komið var eftir hlé eða á frumsýningu í verkinu þegar leikur þeirra var algerlega samtvinnaður.

Leikstjórinn af þessu fína verki, „Hið fúla fólsku morð“, er Guðröður, leikinn af Árna Jónssyni. Guðröður er algjörlega að gera sitt besta í frekar erfiðum aðstæðum, leikhópurinn er frekar dapur og handritið í slakari kantinum, en Gurri leggur sig allan fram og skilar Árni því til okkar með mikilli prýði þar sem ég trúði því algjörlega, þar sem hann hentist upp og niður af sviði, að hann væri hinn mikið stressaði leikstjóri. Utan sviðs standa tæknimaðurinn Láki og sviðstjórinn Agga, þó þau greinilega eru bæði með fleiri hlutverk en það í þessu óræðna leikhúsi.

Láki sem er leikinn af Kristjáni Erni Kristjánssyni leggur sig allan fram um að græja tækni og sviðsmynd og er hann mjög trúverðugur í sínu hlutverki. Agga, sem er leikin af Fanney Rós Konráðsdóttir, er mikill partur af heildarmyndinni þar sem hún er þessi í leikhúsinu sem greinilega á mörg hlutverk. Ég hef klárlega hitt hennar týpu í raunveruleikanum þar sem hún var með alla bolta á lofti og lausnir í hverjum vasa, þó svo það færi líka þannig á köflum að hún náði ekki að halda utanum allt sem átti að gerast á þeim tíma sem það átti að gerast.

Höfundurinn á verkinu, Sigdís sem er leikin af Elvu Björk Guðmundsdóttur, kom líka mikið við sögu, þar sem hún var mætt til þess að skipta sér af öllu og engu. Þessi höfundur var greinilega martröð leikstjórans og allra sem að sýningunni stóðu þar sem hún vildi klárlega ekki sleppa tökum á sínu verki. Elva skilaði þessu hlutverki alveg frábærlega þar sem hún þvældist um á sviði og utan sviðs og var meira fyrir en til gagns. Ungur strákur var líka þarna hann Finnur, leikinn af Finni Alexander L. Sorinssyni, og átti hann væntanlega að vera sonur leikstjórans og fékk að vera með sem tónlistarmaður, skilaði Finnur því hlutverki með miklum sóma og fékk ég algjörlega þá tilfinningu að hann var ekki í leikritinu.

Í heildina var öll uppsetning á þessu verki hjá Leikfélagi Sauðárkróks til fyrirmyndar, sviðsmyndin var mjög mínímalísk og ekkert óþarfa dót. Hún skilaði því sem hún átti að skila og skemmtileg útfærsla af hlutum sem voru hengdir upp í loftið og látnir síga niður þegar við átti (eða ekki). Leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir vann greinilega frábæra vinnu með flottum leikhóp þar sem leikgleðin og samheldnin skein í hverri senu.

Til hamingju Leikfélag Sauðárkróks með flotta sýningu og hvet ég alla til að gera sér glaðan dag og eiga stund í Bifröst og láta kitla aðeins hláturtaugarnar.

/Jóhanna S. Ingólfsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir