Júróvisíon-stemning hjá Kvennakórnum Sóldísi - Góð upphitun fyrir úrslitakvöldið um síðustu helgi

Frá tónleikum Sóldísar í Miðgarði á konudaginn. Engu líkara en Kúst og fæjó sé hér túlkað með tilheyrandi hjálpartækjum. Mynd: Eyvör Pálsdóttir.
Frá tónleikum Sóldísar í Miðgarði á konudaginn. Engu líkara en Kúst og fæjó sé hér túlkað með tilheyrandi hjálpartækjum. Mynd: Eyvör Pálsdóttir.

Júróvision-upphitunin náði hámarki um helgina þegar ljóst varð hver verður fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarsstöðva sem fram fer í Liverpool á Englandi í maí. Þar náði Diljá með lagið Power að hafa betur gegn OK-i þeirra Langa Sela og Skugganna í einvígi eins og sjónvarpsáhorfendur gátu fylgst með á RÚV. Eyfirðingum og nærsveitarfólki stóð til boða að fá sérstaka Júróvisjón-upphitun hjá Kvennakórnum Sóldísi fyrr um daginn í félagsheimilinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit og eins og við mátti búast var kátt í höllinni.

Að sögn Helgu Rósar Indriðadóttur, stjórnanda Sóldísar gekk konsertinn ljómandi vel, mæting alveg þokkaleg, stemning góð enda um góða upphitun fyrir úrslitakvöldið í Söngvakeppninni að ræða. Gömul og ný Eurovision lög eru á söngdagskránni og eru tónleikarnir haldnir undir kjörorðinu; Eitt lag Eurovision glimmer og gleði.

Frumflutningur tónleikanna fór fram á konudaginn í Menningarhúsinu Miðgarði fyrir troðfullu húsi, eins og vera ber á heimavelli, mikil stemning og svo hið rómaða kaffihlaðborð á eftir konsert.

Sú nýbreytni varð við undirleik að heldur fjölgaði hljóðfæraleikurum. „Já, við ákváðum að fara í smá þema, sem er Eurovision keppni, og þá var ekki hægt annað en að fá smá stuðning í það. Rögnvaldur er náttúrulega eins og klettur við píanóið en svo bættust þeir við Steini og Siggi á bassa og trommur,“ segir Helga Rós er Feykir spurði frétta. Rögnvald þarf vart að kynna frekar en hann hefur setið við slaghörpuna frá stofnun kórsins en hinir koma ferskir inn Steinn Leó Sveinsson og Sigurður Björnsson. Helga segir það ekki hafa verið mikið mál að samræma hljómsveit og kór þar sem allir komu vel undirbúnir til samæfingar og allt gekk mjög vel.

Fleiri tónleikar eru á dagskrá kórsins innan Norðurlands vestra því þann 18. mars verður sungið á Hvammstanga og Skagaströnd sama dag, á Blönduósi þann 25. apríl og á Hofsósi fjórum dögum síðar.

Kústarnir voru einnig á lofti í í Eyjafjarðarsveitinni sl. laugardag. Mynd: Emil Hauksson.

Þið lofið áframhaldandi Júróvisjón-stemningu?

„Já, við keyrum á þetta áfram. Við förum vítt og breitt, tökum lög frá upphafi keppninnar. Þetta eru ekki endilega vinningslög, líka lög úr undankeppninni hér heima og hafa orðið vinsæl,“ segir Helga Rós en sem dæmi þá er síðasta lagið á dagskránni Með hækkandi sól sem Systur fóru með til Tórínó á Ítalíu í fyrravor. Hún neitar því að framlag Íslands þetta árið verði kyrjað af kórnum í þetta skiptið.

„Við ætlum ekki að taka það sem er á leiðinni út núna. Ég neita því ekki að það er aðeins þynnri síðasti áratugur að lagavali hjá okkur,“ segir hún hlæjandi. „En það er svo gaman, ef maður spáir í þetta, hvað lögin eru ólík og skemmtileg, ólíkari en maður hefði kannski ímyndað sér.“

Sæluvikutónleikarnir verða að þessu sinni á Hofsósi og segir Helga Rós að skipst hafi verið á að syngja þar eða á Króknum. „Við förum sennilega upp á HSN sama dag og tónleikarnir eru á Hofsósi og syngjum fyrir fólkið okkar þar,“ segir Helga að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir