Kaupfélag Skagfirðinga og Steinull hf. fengu úthlutað úr flutningsjöfnunarsjóði

Snippuð mynd af topp 10 listanum.
Snippuð mynd af topp 10 listanum.

Í skýrslu sem gefin var út af innviðaráðherra um framkvæmd svæðisbundinnar flutningsjöfnunar á árinu 2023 segir að þetta sé í ellefta skipti sem styrkir af þessu tagi séu veittir. Úthlutað hafi verið 164,4 milljónum kr. af þeim 166,6 m.kr. sem heimild hafi verið fyrir en alls fengu 86 umsækjendur styrk og var heildarfjárhæð samþykktra styrkumsókna 300,9 m.kr. og því útgreiðsluhlutfallið 54,6%.

Umsóknarfresturinn var frá 1. febrúar til og með 31. mars 2023 en Flutningsjöfnunarstyrkir eru greiddir út samkvæmt lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun. Markmið þeirra er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

Flestar umsóknirnar komu frá Norðurlandi eystra eða 38 talsins, átján komu frá Vestfjörðum, níu frá Vesturlandi, átta frá Norðurlandi vestra, sjö frá Austurlandi, sex frá Suðurlandi og ein frá Suðurnesjum og fór hæsta upphæðin til umsækjenda á Norðurlandi eystra eða ríflega 71,2 m. kr. Á Vestfjörðum voru veittar tæpar 35,8 milljónir og 26,4 milljónir fóru til umsækjenda á Norðurlandi vestra. Þá voru 80 umsóknir vegna framleiðslustarfsemis sem heyrir undir C-bálk íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar og voru þar langflestar, 65 umsóknir að upphæð 140,9 m.kr., vegna matvæla- og drykkjarvöruiðnaðar. Aðeins sjö umsóknir voru vegna grænmetisræktunar í A-bálki sem hljóðuðu samtals upp á rúma ein milljón króna.

Langhæsta styrkinn fékk Samherji hf., samtals 21,4 m.kr. en Kaupfélag Skagfirðinga fékk næsthæsta styrkinn eða 11.3 m.kr. Steinull hf., sem er í 50% eigu KS, hlaut 10,6 m.kr., Kjarnafæði Norðlenska fékk 9,8 m.kr., Skinney-Þingnes 8,7 m.kr., Arna ehf. 8 m.kr., Coca-Cola Europacific Partners fékk 5,1 m.kr., Gjögur hf. fékk 5 m.kr. og Fóðurverksmiðjan Laxá hf. fékk 4,9 m.kr. Þessir tíu styrkhafar hlutu 56,4% af heildarfjárhæð greiddra styrkja, eða 92,7 m.

Hér má lesa skýrsluna nánar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir