Kennt í gegnum Teams forritið hjá FNV

Tími að hefjast í sögu hjá Helga Hannessyni í gærmorgun. Mynd: PF
Tími að hefjast í sögu hjá Helga Hannessyni í gærmorgun. Mynd: PF

Sú ákvörðun yfirvalda að framhaldsskólar landsins skuli loka frá með mánudeginum síðasta og á meðan samkomubann er í gildi, kallar á breyttar aðferðir í skólahaldi með nútíma tölvutækni. Á heimasíðu FNV segir að það vilji svo til að kennarar við FNV hafi áralanga reynslu af kennslu í gegnum allskyns fjarfundatækni sem skólinn hyggst nýta  meðan á lokun framhaldsskóla stendur.

Reglulegt skólahald með fjarfundasniði hófst sl. þriðjudagsmorgun og mættu nemendur eins og áður í kennslustundir, en að þessu sinni heima hjá sér. Kennarar skólans í bóklegum greinum munu mæta eins og áður í kennslustundir samkvæmt stundatöflu, setjast við tölvuna og hefja kennslu í gegnum Teams forritið.  Nemendurnir setjast við sínar tölvur eða snjallsíma heima hjá sér og opna forritið og mæta í viðkomandi kennslustund. Kennararnir styðjast við Moodle og INNU eins og áður en eini munurinn er sá að nemandinn situr heima og kennarinn í skólanum. Merkt verður við skólasókn eins og áður og sömu kröfur gerðar til skólasóknar og verkefnaskila eins og verið hefur.

„Þetta fór ótrúlega vel af stað. Við ætlum meira að segja að ganga svo langt að verða með íþróttir á Teams en ég óskaði eftir því að krakkarnir fengju líka að hreyfa sig,“ sagði Ingileif Oddsdóttir, skólameistari FNV, þegar Feykir sló á þráðinn til hennar á þriðjudaginn.   

Hvað verknámi viðkemur, segir Ingileif að fagbóklegu tímunum verði fjölgað meðan á samkomubanni stendur. Vonast hún þá eftir að þeir tímar verði búnir þegar opnað verður aftur því þá væri hægt að setja allan kraft í verklega hlutann. Hún segir engan bilbug að finna á kennurum eða nemendum og allt sé á fullu eins og á að vera. Aðspurð um mætingu í fyrstu tímana segir Ingileif nemendur hafa skilað sér vel í tímana.

Ingileif segir að mánudagurinn hafi verið notaður til að undirbúa þetta stóra verkefni en margir kennarar hafi mikla reynslu í fjarkennslu í gegnum Skype.

Hún segir þá kennara sem hafa verið með fjarnámið vana þó um annað form sé að ræða en boðið var upp á kennslu á Teams kerfið á mánudag þar sem kennarar settu inn sína hópa og gerðu klárt og svo var bara byrjað morguninn eftir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir