Kiwanis með fyrsta framlag til kaupa á líkbíl

Við afhendingu stofnsjóðs fyrir nýjum líkbíl í Skagafirði. Séra Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur Sauðárkrókskirkju, Ingimar Jóhannsson, formaður safnaðarnefndar, Ómar Kjartansson, forseti Kiwanisklúbbs Sauðárkróks og Bjarki Tryggvason formaður styrktarnefndar. Mynd: PF.
Við afhendingu stofnsjóðs fyrir nýjum líkbíl í Skagafirði. Séra Sigríður Gunnarsdóttir, sóknarprestur Sauðárkrókskirkju, Ingimar Jóhannsson, formaður safnaðarnefndar, Ómar Kjartansson, forseti Kiwanisklúbbs Sauðárkróks og Bjarki Tryggvason formaður styrktarnefndar. Mynd: PF.

Það er óhætt að segja að þau samfélög eru rík sem njóta góðvildar hinna ýmsu klúbba sem hafa svo oft lagt mörgum góðum málefnum lið. Svo er um Skagafjörð en frá Kiwanisklúbbnum Drangey á Sauðárkróki hafa margvíslegar gjafir ratað til einstaklinga og stofnana og má í því sambandi m.a. benda á hjálma til grunnskólabarna, hin ýmsu tæki á sjúkrahúsið og sitthvað til kirkjunnar svo eitthvað sé nefnt.

Í síðustu viku hélt klúbburinn sinn 728. fund í Ljósheimum og meðal dagskráratriða var að afhenda safnarnefnd Sauðárkrókskirkju 500 þúsund króna styrk í söfnunarsjóð til kaupa á nýjum líkbíl en sá gamli er orðinn gamall og bilanagjarn. Svo vel vildi til að umræða um slíka söfnun hafði komið fram á safnaðarstjórnarfundi skömmu áður en stjórnin var látin vita af áætlunum Kiwanisfélaga.

Kiwanisfélagar á sínum 728. fundi í Ljósheimum 22. nóvember sl. Mynd: PF.

Á fyrrgreindum Kiwanisfundi kom fram að nýr líkbíll gæti kostað á bilinu 6-8 milljónir og skorar klúbburinn á aðra klúbba og félagasamtök í Skagafirði að leggja málefninu lið og ekki síst fyrirtæki og einstaklinga því eins og segir í góðum fræðum að margt smátt gerir eitt stórt.

Styrkurinn kemur beint frá félögum eða úr félagssjóði en ekki styrkjasjóði klúbbsins sem alla jafna er ætlaður börnum á einhvern hátt.

Ingimar Jóhannsson, formaður safnaðarnefndar Sauðárkrókskirkju, Ómar Kjartansson, forseti klúbbsins, Bjarki Tryggvason, formaður styrktarnefndar og Ólafur Jónsson, ritari. Mynd: PFSéra Sigríður Gunnarsdóttir prestur Sauðárkrókskirkju og Ingimar Jóhannsson, formaður sóknarnefndar, veittu gjöfinni viðtöku úr höndum Bjarka Tryggvasonar, formanns styrktarnefndar, og sagði Ingimar það ómetanlegt að eiga slíkan félagsskap, ekki bara fyrir kirkjuna heldur einnig fyrir samfélagið allt. „Fyrir okkur í sóknarnefndinni hyllir undir það að fjarlægur draumur rætist sem orðinn var mjög aðkallandi að finna lausn á, því við erum með 38 ára gamla líkbíl sem eyðir rúmlega 20 lítrum á hundraði,“ sagði Ingimar en bíllin kom nýr á Krókinn 1981 sem sjúkrabíll. Árið 1997 gaf Rauði krossinn kirkjunni bílinn sem í kjölfarið var breyttur til þess að geta þjónað sem líkbíll.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju:

0310-22-001029
Kt. 560269-7659

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir