Kórsöngur við kertaljós
Þriðjudaginn 3. desember s.l. blés Kór Glaumbæjarprestakalls, ásamt Kór Varmahlíðarskóla, til kórsöngs við kertaljós á Löngumýri. Tilefnið var útgáfa kórsins á nýútkomnum jólageisladiski sem ber heitið Kertaljós. Hann hefur að geyma hugljúfa jóla- og aðventutónlist sem kórnum hefur tekist að koma vel til skila inn á diskinn. Atli Gunnar Arnórsson var kynnir kvöldsins og fórst það vel úr hendi.
Tónlistin hófst á því að Kór Varmahlíðarskóla söng undir stjórn Helgu Rósar Sigfúsdóttur við undirleik Stefáns R. Gíslasonar. Þá tók Kór Glaumbæjarprestakalls nokkur lög undir stjórn Stefáns og lauk tónunum á því að kórarnir tveir sungu saman.
Að loknu tónaflóði var komið að upplestri úr bókum. Voru til þess fengnir vel læsir piltar. Þar má fyrstan telja Ólaf Atla Sindrason, kennara og bónda á Grófargili, í framhaldi las Ingimar Ingimarsson, bóndi á Ytra-Skörðugili, og síðastur steig í pontu sérstakur gestur kvöldsins, Ágúst Ólason fyrrum skólastjóri Varmahlíðarskóla. Að dagskrá lokinni buðu kórarnir upp á kakó með rjóma og ljúfmeti með. Fjöldi manns sótti dagskrána og gerði góðan róm að. Meðfylgjandi myndir tók Ágúst Ólason.
Þess má að lokum geta að nýi diskurinn, Kertaljós, fæst í Rafsjá, Skagfirðingabúð, KS í Varmahlíð sem og í verslunum Hagkaupa.
/Aðsent
