Króksari sigurvegari í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2023

Jóhönnu Maríu Grétarsdóttur Noack er margt til lista lagt en hún er m.a. liðtæk í júdó og hefur krækt í Íslandsmeistaratitil yngri flokka. Hér er hún með verðlaunin í Nýsköpunarkeppninni. Aðsend mynd.
Jóhönnu Maríu Grétarsdóttur Noack er margt til lista lagt en hún er m.a. liðtæk í júdó og hefur krækt í Íslandsmeistaratitil yngri flokka. Hér er hún með verðlaunin í Nýsköpunarkeppninni. Aðsend mynd.

Jóhanna María Grétarsdóttir Noack, nemandi 6. bekkjar Árskóla á Sauðárkóki, stóð uppi sem sigurvegari í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2023, hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla landsins. Hugmynd Jóhönnu Maríu kallast Ultimo sem bæði er hlutur og app. Með appinu er hægt að skanna matvæli og hvenær hann rennur út sem sendir svo skilaboð á skjá sem er t.d. fest við kæliskáp.

Á heimasíðu keppninnar nkg.is segir að mörg hundruð frábærra hugmynda hafi borist frá nemendum að þessu sinni og var, eins og alltaf, ekki auðvelt að velja einungis 25 hugmyndir sem kepptu að lokum um hylli dómnefndar. Að öllu jöfnu hefðu þessar 25 hugmyndir verið unnar frekar í vinnustofu sem því miður féll niður í ár.

„Margt sem spilaði þar inn í en þó aðallega að uppstigningardagur og hvítasunnan útiloka tvær vinnustofur (þær eru haldnar frá fös. til lau.), 25.-27. maí gekk ekki upp, hvorki fyrir HR né okkur, sökum prófatímabils, skörun við aðra viðburði o.fl. Það hefur reyndar verið mikið púsluspil að ná að halda vinnustofuna í maí og var kannski bara tímaspursmál hvenær við næðum ekki að halda hana. Stefnum á, í samráði við kennara, að halda vinnustofurnar, eftirleiðis í byrjun júní,“ segir í útskýringum keppnishaldara.

Fyrir hugmyndina Ultimo hlaut Jóhanna María 50.000 kr. í verðlaun ásamt verðlaunabikar og viðurkenningarskjali, undirritað af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands.

Hugmyndin gengur út á það að sporna gegn matarsóun sem að mati Jóhönnu er of mikil í samfélaginu.

„Ég vil leysa matarsóun og líka að stundum finn ég úldna mjólk í ísskápnum. Það er of mikil matarsóun og líka fólk verður veikt ef það borðar eitthvað úldið,“ skrifar hún í útskýringum með verðlaunahugmynd sinni inn í keppnina. Sjá nánar HÉR
Úrslit keppninnnar má nálgast HÉR.

Jóhanna María er dóttir þeirra Anniku Noack og Grétars Karlssonar á Sauðárkróki.

Tengdar fréttir: 
Keppnisferð Jóhönnu Maríu í júdó til Hollands og Belgíu
Jóhanna María úr Tindastól Íslandsmeistari í júdó
Júdó er ekki bara fyrir stráka! :: Íþróttagarpurinn Jóhanna María Íslandsmeistari í júdó

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir