Langþráður hraðbanki á leið í Hofsós
Mikil óánægja hefur ríkt meðal íbúa Hofsóss og nágrennis vegna hraðbankaleysis á staðnum. Nú er komið rúmlega hálft ár síðan hraðbanka á staðnum var lokað, en hann var staðsettur í þáverandi bráðabirgðahúsnæði Kaupfélagsins. Skömmu fyrir Jónsmessuna í sumar flutti Kaupfélagið í fyrra húsnæði, eftir gagngerar endurbætur vegna bruna tveimur árum fyrr, en hraðbanki hefur ekki verið til staðar á Hofsósi síðan.
Íbúar Hofsóss og nágrennis segja þetta til mikilla óþæginda, ekki síst fyrir fólk sem hefur ekki bíl til umráða, og þó svo sé, þá kosti sitt að keyra á Sauðárkrók, eingöngu til að taka út pening. Nú stendur þetta til bóta, þar sem nýr hraðbanki er væntanlegur á Hofsós á miðvikudaginn og á hann að vera kominn í notkun fyrir jól, að sögn Jóels Kristjánssonar útibússtjóra Arionbanka.
Jóel tók undir að málið væri búið að taka sinn tíma. „Sumir hlutir taka einfaldlega lengri tíma en aðrir. En við erum ánægð með að þetta sé komið í höfn, öllum til góðs, sérstaklega viðskiptavinum okkar,“ sagði Jóel í samtali við Feyki í morgun.
Hraðbankinn verður staðsettur í húsnæði Kaupfélagsins og aðgengilegur á opnunartíma verslunarinnar.