Líkfundur í Skagafirði í nýrri glæpasögu
Illa útleikið lík finnst skammt frá Grettislaug í Skagafirði í upphafi nýrrar glæpasögu eftir Ragnar Jónasson, Myrknætti, sem út kom hjá bókaforlaginu Veröld í október og fór beint í 2. sæti á lista Félags íslenskra bókaútgefenda yfir mest seldu íslensku skáldverkin 9.-22. október 2011.
Þetta er þriðja glæpasaga höfundarins, sem ættaður er að norðan, en önnur bók hans, Snjóblinda – sem gerist að mestu á Siglufirði – kom nú á dögunum út hjá þýsku útgáfusamsteypunni Fischer Verlage undir heitinu Schneebrautog hefur fengið góðar viðtökur þar í landi. Eschborner Stadtmagazin sagði til dæmis á vefsíðu sinni að bókin væri frábært verk til þess að kynnast gestalandi bókamessunnar, Íslandi, og í ritdómi frá bóksala á vefsíðu bókaverslunarinnar Thalia.de fékk bókin fjórar stjörnur af fimm mögulegum undir yfirskriftinni: „Frábær uppgötvun.“
Atburðarásin í hinni nýju bók Ragnars, Myrknætti, teygir sig yfir Norðurland en sagan gerist meðal annars í Skagafirði, á Akureyri, Dalvík og Siglufirði. Í ljós kemur að maðurinn sem finnst látinn í Skagafirðinum var búsettur á Siglufirði og hafði starfað við Héðinsfjarðargöngin. Aðalsöguhetjan er ungur lögreglumaður á Siglufirði en sjónvarpsfréttakona í Reykjavík, Ísrún, sýnir málinu líka mikinn áhuga og heldur norður í leit að upplýsingum um morðið og hinn myrta. Á sama tíma bíður ung nepölsk kona dauða síns, lokuð inni í myrkri á óþekktum stað á Íslandi. Saman fléttast þessir þræðir í frásögn þar sem ekkert er sem sýnist.
/Fréttatilkynning