Mesti fjöldi hraðprófa á heilsugæslunni á Sauðárkróki í morgun

Það var nóg að gera á heilsugæslustöðinni á Sauðárkróki í morgun þar sem yfir 400 hraðpróf voru tekin vegna Covid 19 en ekki er boðið upp á sýnatöku um helgar á Króknum. Að sögn Kristrúnar Snjólfsdóttur, yfirhjúkrunarfræðings, gekk sýnatakan mjög vel, enda fólk afar jákvætt í biðröðinni þrátt fyrir mikið frost en sem betur fer flestir frekar neikvæðir í niðurstöðum eftir sýnatöku. „Þetta er mesti fjöldi sem hefur komið til okkar í hraðpróf vegna viðburða,“ segir Kristrún.
Hraðpróf eru notuð af heilsugæslunni og viðurkenndum einkaaðilum við skimun hjá einkennalausu fólki, til dæmis fyrir viðburði, en líka í upphafi og enda smitgátar. Sýnatakan fer þannig fram að tekin eru sýni úr nefi einstaklinga og niðurstöður skannaðar inn og fær fólk svar alla jafna fljótlega eftir að sýnatöku lýkur.
„Sá sem greinist jákvæður kemur aftur til okkar og við höfum þá endurtekið hraðprófið og einnig tekið PCR próf sem svar fæst við seinna í dag. Það er alltaf möguleiki á að það greinist falskt jákvætt eða neikvætt svar í hraðprófi. Lögreglan var okkur til aðstoðar í dag sem var mjög gott og þá gat hún vísað eldra fólki og þeim sem voru með ung börn framar í röðina,“ segir Kristrún sem vill koma þökkum til fólks fyrir þeirra þolinmæði í biðröðum.
„Við gerum okkar besta til að þetta gangi eins vel og hægt er. Við biðjum einnig þá sem eru að koma í hraðpróf að ljúka skráningu í prófið þannig að það sé komið inn í kerfið. Auðveldast er að fara inn í heilsuveru og skrá sig þar. Nú er það hins vegar þannig að það eru ekki allir sem geta skráð sig inn í heilsuveru, eru t.d. ekki með rafræn skilríki. Þá er hægt að fara inn á hradprof.covid.is og velja þar „skráning í hraðpróf vegna viðburðar“. Þá er hægt að velja um skráningu annars vegar í gegnum farsíma og hins vegar í gegnum netfang. Það ættu því allir að geta skráð sig í hraðpróf og það er upplagt að fá einhvern til að aðstoða sig við þetta ef þess þarf.“
Kristrún segir mikilvægt að fólk mæti á þeim tíma sem sýnataka á að vera þar sem það geri allt auðveldara fyrir starfsfólkið. Hægt er að bóka sig í hraðpróf alla virka daga kl.8.30 og 8.45. „Það er mjög mikilvægt að þetta sé allt klárt þegar mætt er því þá gengur allt miklu betur.“