Miðstöð endurhæfingar við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki

Það eru gleðitíðindi að heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir hafi ákveðið að komið verði á fót frekari aðstöðu til almennrar endurhæfingar við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki, með allt að fjórum nýjum rýmum. Þannig er komið á móts við óskir stofnunarinnar, en ekki síður heimamanna.

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur barist ötullega fyrir því, allt frá haustinu 2010, að sú góða aðstaða og hæfa starfsfólk sem er til staðar við stofnunina á Sauðárkróki verði nýtt enn frekar og þar byggð upp sérhæfðari endurhæfingarþjónusta og stofnuninni skapaður ákveðinn sess á landsvísu á því sviði. Greinargerðir og tillögur um það efni hafa ítrekað verið kynntar fyrir heilbrigðisyfirvöldum frá þeim tíma, fengið jákvæðar undirtektir, en lítið gerst. Nú hefur orðið breyting þar á með ákvörðun núverandi heilbrigðisráðherra. Á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins segir Svandís ánægjulegt að geta stutt við þetta verkefni HSN og segir ennfremur „Endurhæfing er mikilvæg heilbrigðisþjónusta sem getur jafnvel ráðið úrslitum um það hvernig fólki reiðir af í kjölfar aðgerða, veikinda eða annarra áfalla. Þetta á ekki síst við þegar eldra fólk á í hlut. Ég fagna þessu frumkvæði stofnunarinnar og er viss um að þjónustuviðbótin sem í þessu felst muni skipta miklu máli.“

Við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki er góð endurhæfingaraðstaða, endurhæfingarsundlaug, sem hægt er að nýta mun betur, vel tækjum búinn æfingasalur, auk þess sem margir hæfir sjúkraþjálfarar eru til staðar. Einnig er mjög gott starfsfólk á fleiri sviðum sem komið getur að uppbyggingu á enn frekari sérhæfðri endurhæfingarþjónustu við stofnunina. Að þessu sinni er við það miðað að endurhæfingin verði sérstaklega sniðin að þörfum eldra fólks sem þarf á endurhæfingu að halda svo sem vegna liðskiptaaðgerða, gigtar og annarra ástæðna þar sem almenn hjúkrun, sjúkraþjálfun og endurhæfing í aðstöðu og eins og er til staðar á Sauðárkróki kemur að góðum notum. Það er hinsvegar ekkert því til fyrirstöðu að halda því verki áfram sem nú er hafið, að byggja upp sérhæfða endurhæfingarþjónustu á landsvísu við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki fyrir fólk á öllum aldri með fjölbreyttar endurhæfingarþarfir. Aðstaðan og hæft starfsfólk er til staðar. Með því geta heilbrigðisyfirvöld í senn sparað fjármuni sem færu í að byggja upp nýja slíka aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu og bætt þjónustu við þá sem þurfa á endurhæfingarþjónustu að halda á landsvísu.

Þessi ákvörðun heilbrigðisráðherra markar langþráð tímamót sem mikilvægt er að fylgt sé eftir af Skagafirði og öðrum sveitarfélögum á svæðinu, sem vinni að því í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld og Heilbrigðisstofnunina að byggja upp á þeim grunni, enn frekari alhliða endurhæfingarþjónustu á Sauðárkróki sem þjónað geti öllu landinu.

Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir