Mikil og góð stemning á lokatónleikum Sóldísar

Kvennakórinn Sóldís lauk vetrarstarfi sínu í Höfðaborg á Hofsósi þann 29. apríl sl. en yfirskrift tónleikanna var Eurovision - Eitt lag enn. Mynd: PF.
Kvennakórinn Sóldís lauk vetrarstarfi sínu í Höfðaborg á Hofsósi þann 29. apríl sl. en yfirskrift tónleikanna var Eurovision - Eitt lag enn. Mynd: PF.

Kvennakórinn Sóldís bauð upp á skínandi góða Júróvisjónupphitun sl. laugardagskvöld í Höfðaborg á Hofsósi með söngprógrammi sínu sem einnig setti endapunktinn á vetrarstarfið. Kórinn hafði haldið fimm tónleika fyrir þetta kvöld bæði innan héraðs og utan.

Heimildir Feykis herma að smá efasemdir hefðu gert vart við sig hjá kórkonum um að fólk myndi fjölmenna á tónleikana þar sem að á sama tíma fór fram fjórði leikur Tindastóls í úrslitaeinvígi Subwaydeildarinnar í körfubolta gegn Njarðvík. En auðvitað eru Skagfirðingar söngelskir og létu sig ekki vanta á þessa afbragðs góðu menningardagskrá Sæluvikunnar.

Á dagskrá voru Júróvisjónlög frá ýmsum tímum, erlend sem innlend, í bland við lög sem tóku þátt í forkeppni hér á Fróni en náðu ekki þeirri vegferð sem þau sannarlega áttu skilið.

Sú nýbreytni var gerð við undirleik kórsins í vetur að auk Rögnvaldar Valbergssonar, sem alla tíð hefur leikið á slaghörpu hjá Sóldísi, fylltu frændurnir Steinn Leó Sveinsson og Sigurður Björnsson hljóminn með bassa og trommuslætti. Var það vel við hæfi með slíkt lagaval. Þá fengu margir ryk í augun þegar Kristín Halla Bergsdóttir og Anna Karítas Ingvarsdóttir bættust í undirleikinn með einkar fallegum leik á fiðlu og þverflautu í laginu Nocturne. Alls voru fjórtán lög á dagskránni og útsetti Rögnvaldur undirleikari flest þeirra og gerði með glæsibrag.

Tónleikarnir tókust mjög vel og óhætt að fullyrða að tónleikagestir skemmtu sér vel sem þökkuðu fyrir sig með standandi lófataki. Það verður spennandi að sjá hvað kórinn býður upp á næsta vetur til að toppa þetta en lítill fugl hefur hvíslað því að þar verði ekki ráðist á litla garðinn.

Hér fyrir neðan má sjá og heyra uppklappslagið sem setti jarðarberið á topp tertunnar þetta laugardagskvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir