Nautalund og rækjukokteill | Matgæðingur vikunnar
Matgæðingar vikunnar í tbl. 28 voru María Einarsdóttir og Jóhann Ingi Haraldsson í Ásgeirsbrekku í Skagafirði. María er ættuð frá Vindheimum en uppalin í Garðabæ en Jóhann Ingi er frá Enni. „Við eigum alltaf eitthvað gourmet kjöt í kistunni og eldum flesta daga. Við höfum bæði nokkuð gaman af eldamennsku en notum sjaldnast uppskriftir, yfirleitt er þetta eitthvað samsull af því sem til er hverju sinni. En gott að styðjast við góðar uppskriftir þegar eitthvað stendur til. Nautakjöt er í uppáhaldi hjá okkur báðum, það jafnast ekkert á við góða nautasteik.“
FORRÉTTUR
Rækjukokteill - Fyrir um 6 manns
Uppskriftin er virkilega einföld en þolinmæðin þarf að vera til staðar því það þarf að frysta gelato-ið í 24 klst. áður en hægt er að neyta þess.
500 g stórar rækjur
1 sítróna (safinn)
1 mangó
1 avókadó
½ rauðlaukur
2 msk. kóríander
2 hvítlauksrif (rifin)
salt og pipar eftir smekk
salat til að skreyta með chili majónes (sjá uppskrift hér að neðan)
Aðferð: Skolið og þerrið rækjurnar vel. Skerið mangó og avókadó smátt niður og saxið rauðlauk og kóríander. Kreistið sítrónusafann yfir rækjurnar og blandið síðan öllum öðrum hráefnum saman við. Blandið öllu vel saman og skiptið niður í falleg glös á fæti. Skreytið með kálblaði og toppið með chili majónesi.
Sósa með rækjukokteil:
100 g sýrður rjómi
100 g majónes
2 msk. Sriracha sósa
salt og pipar eftir smekk
Aðferð: Pískið allt saman í skál og njótið með rækjunum.
AÐALRÉTTUR
Nautalund með bearnaise sósu og kartöflugratíni
Nautalund
smjör
salt
pipar
Aðferð: Skerið nautalundina í jafnar steikur og leyfið kjötinu að velgjast við stofuhita. Gott er að taka kjötið út 4-5 klst. fyrir eldun. Hitið steypujárns/stálpönnu á miðlungsháum hita. Þegar pannan hefur náð góðum hita er sett smá smjörklípa á pönnuna. Hitið ofninn í 140°C blástur. Steikurnar skal steikja í eina og hálfa mínútu u.þ.b. á hvern kant. Til þess að fá góða „skorpu’’ á steikina skal passa að pannan haldist vel heit en alls ekki of heit! Verið ófeimin að bæta smjöri við og við. Þegar þú ert orðin/n sátt/ur við áferðina á steikunum fara þær inn í ofn og klára sína eldun í rólegheitunum. Takið út í 52-54°C fyrir medium rear/ 56-58°C fyrir medium eldun. Leyfið nú steikunum að hvíla í að minnsta kosti 10 mínútur.
Kartöflugratín:
4 bökunarkartöflur
12 sneiðar þykkt beikon
2 laukar
1 stk. rifinn piparostur
600 ml matreiðslurjómi
1 poki rifinn gratínostur
2 hvítlauksgeirar
salt og pipar eftir smekk
fersk steinselja eftir smekk
Aðferð: Hitið ofninn við 200°C blástur og pönnu á miðlungsháum hita. Skerið kartöflurnar í þunnar jafnar sneiðar, laukinn smátt, beikonið í jafna bita og rífið piparostinn. Á pönnunni steikið þið beikonið þar til það verður stökkt og fallegt, setjið til hliðar. Laukurinn er svo steiktur upp úr beikonfitunni og hvítlauknum bætt saman við þegar laukurinn er farinn að mýkjast. Raðið kartöflunum í eldfast mót, saltið og piprið yfir, setjið nú hluta af lauknum og beikonið yfir ásamt rifna piparostinum. Endurtakið þar til hráefnið er búið, passið þó að piparosturinn klárist undir kartöflunum. Að lokum hellið þið rjómanum yfir og setjið inn í ofn í 50 mínútur. Takið þá fatið út og stráið gratín ostinum yfir. Leyfið að eldast þar til osturinn er orðinn bráðinn. Steinseljan fer svo yfir í lokin áður en gratínið er borið fram.
Verði ykkur að góðu!
María og Jóhann skoruðu á Óskar Már Atlason að taka við næsta matgæðing.
