Niðurstöður 2. umferðar Íslandsmóts yngri flokka í körfu
Heimasíða körfuknattleiksdeildar Tindastóls hefur tekið saman niðurstöður 2. umferðar Íslandsmóts yngri flokkanna. Árangur okkar liða er viðunandi og til gamans og fróðleiks, eru árangursmarkmið unglingaráðs sett með umsögnum hvers flokks.
Unglingaráð hefur yfirlýst árangursmarkmið með sínum liðum og eru þau aðeins til viðmiðunar. Þau eru stighækkandi eftir aldri og sett til hvatningar fyrir bæði þjálfara og iðkendur. Stóra markmiðið er auðvitað að skila upp hæfum leikmönnum í meistaraflokk og því er við hæfi að árangur yngri flokkanna sé stígandi. Litið er á það sem svo að liðin hafi hvert yfirstandandi keppnistímabil til að ná markmiðum sínum.
Hins vegar ber að taka þessu með fyrirvara og yfirvegun, því ýmsar ástæður geta legið fyrir því að einstaka flokkar nái ekki markmiðum sínum.
8. flokkur drengja lék í B-riðli í Seljaskóla 13. og 14. nóvember. Strákarnir töpuðu öllum sínum leikjum og féllu því niður í C-riðil. Það er samt engin ástæða til að örvænta, því strákarnir eiga heima í B-riðli. Borce þjálfari komst ekki með strákunum í þessa ferð og hefur það án efa haft eitthvað að segja. Hjörtur Geirmundsson tók að sér það krefjandi verkefni að stjórna strákunum í leikjunum og gerði það með sóma.
Tindastóll – ÍR 25-29
Tindastóll – Haukar 25-44
Tindastóll – Njarðvík 23-58
Tindastóll – Stjarnan 36-63
Lokastaðan í riðlinum
1. Njarðvík 8
2. Haukar 6
3. Stjarnan 4
4. ÍR 2
5. Tindastóll 0
Árangursmarkmið unglingaráðs er að 8. flokkur drengja keppi í B-riðli.
Stúlknaflokkurinn keppti í C-riðli á Ísafirði 20. og 21. nóvember. Mótinu var frestað um eina helgi vegna veðurs og ófærðar og var tæpt að hægt væri að ná í lið til að senda á mótið. En það tókst og eiga stelpurnar sannarlega heiður skilinn fyrir að gera þessa keppnisferð að veruleika. Árangurinn varð viðunandi miðað við aðstæður, stelpurnar unnu Skagastúlkur tvisvar en leikin var tvöföld umferð. Þjálfari þeirra er Halldór Halldórsson.
Tindastóll – Akranes 44-22
Tindastóll – KFÍ 26-47
Tindastóll – Akranes 54-36
Tindastóll – KFÍ 22-51
Lokastaðan í riðlinum
1. KFÍ 8
2. Tindastóll 4
3. Akranes 0
Árangursmarkmið unglingaráðs er að stúlknaflokkur spili í A-riðli.
9. flokkur drengja keppti í B-riðli í Keflavík 20. – 21. nóvember. Gerðu strákarnir gott mót og unnu alla leikina mjög örugglega og unnu sig aftur upp í A-riðil, þar sem þeir eiga vissulega heima. Kári Marísson er þjálfari strákanna.
Tindastóll – Fjölnir 72-47
Tindastóll – Breiðablik 64-42
Tindastóll – Njarðvík 70-44
Tindastóll – Keflavík 74-42
Lokastaða riðilsins
1. Tindastóll 8
2. Njarðvík 4
3. Fjölnir 4
4. Keflavík 2
5. Breiðablik 2
Árangursmarkmið unglingaráðs er að 9. flokkur sé í A-riðli.
7.flokkur stúlkna keppti í A-riðli í Njarðvík helgina 20. og 21. nóvember. Stelpurnar skipuðu sér á bekk meðal þeirra bestu á síðasta tímabili þegar þær unnu til silfurverðlauna í Íslandsmóti minnibolta. Keflavík hefur talsverða yfirburði í þessum flokki, en bilið virðist vera að minnka og léku okkar stelpur líka sinn besta leik gegn þeim á þessu móti. Stelpurnar voru afar óheppnar í tveimur leikjanna sem þær töpuðu mjög naumlega og hefði sigurinn hæglega getað orðið þeirra þeim báðum, svo jafnir voru þeir. Þjálfari stúlknanna er Hrafnhildur Sonja Kristjánsdóttir.
Tindastóll – Hrunamenn 20-23
Tindastóll – KR 22-23
Tindastóll – Njarðvík 22-16
Tindastóll – Keflavík 20-39
Lokastaðan
1. Keflavík 12 (bónusstig er gefið fyrir að nota 10 leikmenn í fyrri hálfleik.)
2. Hrunamenn 10
3. KR 6
4. Tindastóll 6
5. Njarðvík 5
Árangursmarkmið unglingaráðs er að 7.flokkur sé ekki neðar en í B-riðli.
Minnibolti stúlkna tekur nú í fyrsta skiptið þátt í Íslandsmótinu. Gaman hefur verið að fylgjast með þróun mála hjá stelpunum, en stöðugt hefur fjölgað í hópnum og mikill áhugi hjá stelpunum sem æfa undir stjórn Ástu Margrétar Benediktsdóttur. Þær hófu leik í A-riðli en féllu niður í fyrstu umferðinni, en stóðu sig vel í B-riðilsmótinu sem haldið var hér á heimavelli 27. nóvember.
Tindastóll – Haukar 31-22
Tindastóll – Hamar 35-17
Tindastóll – Grindavík 18-33
Lokastaðan
1. Grindavík 6
2. Tindastóll 4
3. Haukar 2
4. Hamar 0
Árangursmarkmið unglingaráðs er að minnibolti leiki ekki neðar en í C-riðli.
10. flokkur drengja keppti í B-riðli í Garðabæ 27.-28. nóvember. Fjölnismenn reyndust vera með sterkasta liðið að þessu sinni og unnu alla sína leiki. Okkar strákar hafa þó hæfileikana og dugnaðinn til að vinna sig upp á þessu keppnistímabili og hafa tekið miklum framförum undir stjórn Kára Maríssonar þjálfara.
Tindastóll – Stjarnan 53-50
Tindastóll – Breiðablik 63-53
Tindastóll – Fjölnir 45-58
Tindastóll – Keflavík 48-50
Lokastaða riðilsins
1. Fjölnir 8
2. Tindastóll 4
3. Stjarnan 4
4. Breiðablik 2
5. Keflavík 2
Árangursmarkmið unglingaráðs er að 10.flokkur leiki í A-riðli.
9. flokkur stúlkna keppti í A-riðli í Grindavík helgina 27.-28. nóvember. Í síðasta mótinu á síðasta keppnistímabili unnu stelpurnar B-riðilinn og hófu því leik í A-riðli í vetur. Þær héldu sér uppi með einum sigri þá en töpuðu öllum leikjum sínum nú. Þetta þarf ekki að boða slæm tíðindi því þær töpuðu tveimur leikjum aðeins með einu stigi og markmið þeirra verður að vinna sig upp í A-riðilinn fyrir næsta mót og stefna á að vera þar í úrslitamótinu. Þjálfari stelpnanna er Halldór Halldórsson.
Tindastóll – Grindavík 29-49
Tindastóll – Njarðvík 37-38
Tindastóll – Keflavík 27-101
Tindastóll – Haukar 43-44
Árangursmarkmið unglingaráðs er að 9. flokkur sé í A-riðli.
Drengjaflokkur keppir í riðlaskiptu Íslandsmóti og spila strákarnir í A-riðli. Strákarnir hafa spilað 7 leiki, unnið fjóra og tapað þremur. Leikjaplanið var þeim óhagstætt í upphafi móts, þar sem margir leikir voru leiknir í október, þegar þeir voru enn að slípa sig saman undir stjórn nýs þjálfara Borce Ilievski.
En úrslit leikja hafa verið þessi;
Tindastóll – Fsu 64-76
Valur – Tindastóll 43-94
Breiðablik – Tindastóll 68-61
Tindastóll – Grindavík 97-42
Tindastóll – Keflavík 77-65
Þór Ak – Tindastóll 53-78
Tindastóll – Njarðvík 57-84
Staðan í A-riðli eftir fyrri hluta Íslandsmótsins
1. Njarðvík 14
2. FSu 10
3. Tindastóll 8
4. Keflavík 8
5. Grindavík 6
6. Breiðablik 6
7. Þór Ak 2
8. Valur 0
Bikarkeppni KKÍ
Tindastóll á fimm fulltrúa í Bikarkeppni KKÍ. Þrjú þeirra; drengjaflokkur, stúlknaflokkur og 9. flokkur stúlkna sátu yfir í 16-liða úrslitunum, en 9. flokkur drengja sigraði Stjörnuna á útivelli í 16-liða úrslitum 60-64 og 10. flokkur drengja lagði Hauka að velli örugglega 77-58.
Öll þessi 5 lið verða því í pottinum eftir áramót þegar dregið verður í 8-liða úrslitin.
Ef við tökum síðan saman árangursmarkmiðin í einn pakka og setjum stöðu okkar liða með, lítur dæmið svona út:
Lið Markmið Staða
Minnibolti stúlkna C B
7.fl. stúlkna B A
9.fl. stúlkna A B
Stúlknafl. A C
8.fl. drengja B C
9.fl. drengja A A
10.fl. drengja A B
Eins og áður segir er þetta meira til gamans gert að skoða árangurinn með tilliti til markmiða. Stóri árangurinn er sá að við erum með fullt af iðkendum og getum litið framtíðina björtum augum.