Öðru ári Sjávarútvegsskóla unga fólksins á Sauðárkróki lokið

Þátttakendur á Sauðárkróki í Sjávarútvegsskólanum
Þátttakendur á Sauðárkróki í Sjávarútvegsskólanum

Öðru ári í Sjávarútvegsskóla unga fólksins á Sauðárkróki er nú lokið. Kennt var vikuna 7-11. júní.
Nemendur sem sóttu skólann voru 13 og hafa lokið 8. bekk grunnskóla. Verkefnið var unnið í samstarfi
vinnuskóla Sauðárkróks, Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fyrirtækja í sjávarútvegi og
eða tengdum greinum.

Námið er í formi fyrirlestra, heimsókna í Biopol á Skagaströnd, Ísfell og Dögun. Farið var í leiki og
verklegar æfingar s.s. skynmat á fiski og tilraunir. Einnig voru fengnir gestafyrirlesarar þau; Dr.
Hólmfríður Sveinsdóttir og Gísli Svan Einarsson frá Fisk-seafood. Kennarar á Sauðárkróki voru tveir
sjávarútvegsfræðingar frá Háskólanum á Akureyri; þau Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir og Almar Knörr
Hjaltason.

Styrktaraðilar á Sauðárkróki voru Fisk-Seafood hf., Dögun ehf., Hafnarsjóður Skagafjarðar, Fiskmarkaður
Íslands ehf. og Fismarkaður Snæfellsbæjar ehf.
Sjávarútvegsskólinn hóf starfsemi sína árið 2013 og var þá rekinn af Síldarvinnslunni í Neskaupstað.
Fleiri sjávarútvegsfyrirtæki á Austfjörðum sóttust eftir því að taka þátt í verkefninu og árið 2015 var svo
samið við Sjávarútvegsmiðstöð Háskólans á Akureyri um að taka við umsjón skólans. Á næstu árum var
ákveðið að kenna skólann á Norðurlandi í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækin þar. Sumarið 2020 var
skólinn svo kenndur í fyrsta skipti í Reykjavík, á Sauðárkrók og í Vesturbyggð. Fyrsta rekstrarár skólans
voru nemendur rúmlega 20 en 360 ungmenni sóttu skólann sumarið 2021.

Í fyrsta sinn í sumar var svo Fiskeldisskóli unga fólksins kenndur í Vesturbyggð og á Djúpavogi en hann
byggir á svipuðu fyrirkomulagi og Sjávarútvegsskóli unga fólksins og er liður í samstarfsverkefni Íslands,
Noregs, Svíþjóðar og Finnlands um nám í fiskeldi. Nemendur voru samtals 22 sumarið 2021.

/Fréttatilkynning

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir