Öðruvísi aðventuhátíð um helgina

Jólasveinarnir munu passa upp á tveggja metra regluna í ár enda í sérstökum áhættuflokki fyrir veirunni vondu. Mynd: ÓAB.
Jólasveinarnir munu passa upp á tveggja metra regluna í ár enda í sérstökum áhættuflokki fyrir veirunni vondu. Mynd: ÓAB.

Vegna samkomutakmarkana verður aðventunni fagnað með breyttu sniði í Sveitarfélaginu Skagafirði nú um helgina en ekki verður formleg dagskrá við tendrun jólatrés á Kirkjutorgi í ár líkt og hefð er fyrir. Heyrst hefur að jólasveinarnir hafi líkt og mannfólkið áhyggjur af Covidfárinu og ætla að fara að öllum sóttvarnarreglum og laumast til byggða á laugardaginn, taka rúnt um valdar götur á Sauðárkróki í bílalest með blikkljós og jólatónlist.

Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu munu nemendur Árskóla tendra ljós á jólatrénu á Kirkjutorgi samhliða hinni árlegu friðargöngu skólans sem einnig verður með breyttu sniði og farið eftir öllum sóttvarnarreglum og fjöldatakmörkunum sem í gangi eru í samfélaginu. Nemendur Varmahlíðarskóla munu tendra ljósin á jólatrénu við Varmahlíðarskóla, en nemendur 4. bekkjar skólans fengu það verkefni á dögunum að sækja sjálf jólatré í Reykjarhólsskóg. Nemendur við Grunnskólann austan Vatna munu tendra ljós á jólatrjánum við sína skóla á Hofsósi og á Hólum, en hefð hefur skapast fyrir því á Hólum að nemendur sæki sér tré í Hólaskóg.

Þá hvetur sveitarfélagið til samveru fjölskyldunnar um helgina og stendur fyrir hreyfi-jólabingói þar sem fjölskyldur eru hvattar til þess að fara saman í göngutúr og reyna að fá bingó. Um er að ræða nokkurs konar ratleik þar sem þátttakendur ganga á milli staða eða jafnvel gæða sér á ýmsu góðgæti samkvæmt leiðbeiningum á bingó spjaldi. Þátttakendur taka myndir við hvern viðburð og þegar búið er að ná öllu spjaldinu eru myndirnar sendar inn. Leikurinn verður í gangi alla helgina til að dreifa fjölda fólks. Hægt er að taka þátt alls staðar í Skagafirði, en fjögur mismunandi bingóspjöld verða í boði, fyrir Hofsós, Sauðárkrók, Varmahlíð og dreifbýli Skagafjarðar. Spjöldin má nálgast á www.skagafjordur.is og á Facebook síðu Sveitarfélagsins. Þar eru einnig upplýsingar um hvernig senda á inn myndirnar. Veglegir vinningar verða í boði og allir hvattir til þess að taka þátt!

Jólasveinalest
Jólasveinarnir ætla að laumast til byggða laugardaginn 28. nóvember og taka rúnt um valdar götur á Sauðárkróki í bílalest með blikkljós og jólatónlist. Fjölskyldur eru hvattar til að kíkja út og vinka sveinka. Til að forðast hópamyndanir munu sveinarnir keyra stóran rúnt og gefst fólki kostur á að sjá jólasveinana sem víðast um bæinn en biðlað er til fólks að safnast ekki saman í hópa utan síns nánasta og fara eftir öllum sóttvarnarreglum.

Nákvæm ferðaáætlun jólasveinanna er að finna á www.skagafjordur.is og á Facebook síðu Sveitarfélagsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir