Ragnhildur ráðin til starfa hjá Byggðastofnun

Ragnhildur Friðriksdóttir. MYND AF SÍÐU BYGGÐASTOFNUNAR
Ragnhildur Friðriksdóttir. MYND AF SÍÐU BYGGÐASTOFNUNAR

Nýverið réði Byggðastofnun Ragnhildi Friðriksdóttur til starfa sem sérfræðing á þróunarsviði stofnunarinnar. Starfið var auglýst í september og alls bárust 18 umsóknir, níu frá konum og níu frá körlum. Ragnhildur er með MSc gráðu í umhverfis- og auðlindafræði sjávar frá University of York og BSc gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands.

Hún hefur starfað hjá Matís ohf. frá árinu 2016 sem verkefnisstjóri innlendra og erlendra rannsókna- og fræðsluverkefna innan umhverfis- og loftslagsmála, sjávarútvegs, sjálfbærrar auðlindanýtingar og nýsköpunar með áherslu á mikilvægi framangreindra þátta fyrir menntun, byggðaþróun og samfélög. Ragnhildur mun hefja störf í byrjun nýs árs.

Einhverjir ættu nú að kannast við andlitið enda er hún Skagfirðingur að uppruna, dóttir Friðriks Jónssonar (Karlssonar) og Hólmfríðar Guðmundsdóttur. Svo má geta þess að Ragnhildur starfaði um tíma sem sumarafleysingadama á Feyki.

 

Fleiri fréttir