Samstaða býður til kaffisamsætis í tilefni 1. maí

Dagur verkalýðsins er í dag 1. maí og er haldinn hátíðlegur víða á jarðarkringlunni. Í ár eru 100 ár frá því að íslenskt launafólk fagnaði 1. maí og hvetur Alþýðusamband Íslands, á Facebooksíðu sinni, fólk að sameinast um að standa vörð um unna sigra og halda baráttunni ótrauð áfram. Réttlæti - jöfnuður – velferð, er yfirskrift 1. maí hátíðarhaldanna í ár.

Stéttarfélagið Samstaða, sem þjónar báðum Húnavatnssýslum, býður að venju félagsmönnum sínum til kaffisamsætis í Félagsheimilinu á Blönduósi í dag kl. 15.  Á heimasíðu félagsins segir að boðið verði upp á frábæra tónlist og söng. Ræðumaður dagsins er Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags í Skagafirði. Það er svo USAH sem sér um glæsilegar veitingar.

Á WikiPedia má lesa að um upphaf dags verkalýðsins en árið 1889 hittust fulltrúar (annarra) alþjóðasamtaka kommúnista á ráðstefnu í París, í tilefni af því að hundrað ár væru liðin frá því að Parísarbúar tóku Bastilluna. Þar var ákveðið að gera fyrsta maí að baráttudegi hreyfingarinnar.

„Þessi tiltekni dagur var valinn meðal annars til að minnast blóðbaðsins á Haymarket í Chicago í Bandaríkjunum þremur árum áður. Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á fyrsta maí gengin 1923 og hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966.

Í Bandaríkjunum og Kanada er haldið upp á verkalýðsdag (Labor Day) fyrsta mánudag í september. Hugmyndin um að heiðra verkamenn á þennan hátt var sett fram í Bandaríkjunum árið 1882 og fyrstu lagaákvæðin voru sett þar árið 1887. Í Ástralíu og Nýja-Sjálandi er haldið upp á verkalýðsdag í október.“

Til hamingju með daginn!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir