Sauðárkrókur hopphjólavæðist

Hopp-teymið ásamt sveitarstjóra Skagafjraðar eftir undirritun samninga. Hildur Jónsdóttir, Ágúst Þór Brynjarsson, Sigfús Ingi Sigfússon, Rúnar Þór Brynjarsson og Pálmar Ingi Gunnarsson. Mynd. PF.
Hopp-teymið ásamt sveitarstjóra Skagafjraðar eftir undirritun samninga. Hildur Jónsdóttir, Ágúst Þór Brynjarsson, Sigfús Ingi Sigfússon, Rúnar Þór Brynjarsson og Pálmar Ingi Gunnarsson. Mynd. PF.

Hopphjólin, sem allir þekkja, eru loksins komin á Sauðárkrók, síðasta vígi þeirra bæjarkjarna sem telja um og yfir 1000 íbúa. Fyrr í dag var skrifað undir samning milli fyrirtækisins Hopp og sveitarfélagsins Skagafjarðar hvað starfsleyfi varðar og geta því bæjarbúar tekið þessi vinsælu hjól í sína þjónustu nú þegar. „Þetta er grænn lífsstíll og hvetur minni bílnotkun og hentar Sauðárkróki mjög vel þar sem hann teygist í tvær áttir,“ segir Rúnar Þór Brynjarsson, einn úr Hopp-teyminu.

Hjólin eru auðveld í notkun en eina sem þarf að gera er að sækja Hopp forritið inn á App store eða Play store, setja inn kortaupplýsingar og símanúmer og hoppa af stað eftir að búið er að skanna QR kóða á símann sinn. Leiðbeiningarnar er svo hægt að nálgast á hjólinu sjálfu.

Kostnaðurinn er í lægri kantinum en startgjaldið er 100 krónur og svo kostar hver mínúta 33 krónur þannig að hver ferð gæti hlaupið á aðeins nokkrum hundruðum krónur en allar upplýsingar er hægt að nálgast á Hopp.is.

Sigfús sveitarstjóri var ánægður með hjólaferðina. Mynd: Sigfús Ólafur.

Í appinu sjást staðsetningar allra hjólanna í bænum svo hægt er að ganga að þeim vísum. Ef viðkomandi vill krækja sér í hjól á undan öðrum er hægt að taka það frá í 10 mínutúr meðan viðkomandi kemur sér á staðinn en þá helst það læst í þann tíma. Sömuleiðis er hægt að setja hjólið á bið meðan stansað er t.d. þegar farið er í búð og verslað.

Þegar hjólinu er svo skilað er aðgerðin Ljúka ferð valin, QR kóðinn skannar aftur og mynd tekin af hjólinu, hvar og hvernig því er lagt, til að sýna að það hafi verið gert á sómasamlegan hátt enda leggur fyrirtækið áherslu á að ganga vel um. Fólk er hvatt til að nota hjálm þó það sé ekki skylda.

Búið er að dreifa 20 hjólum um bæinn og ef vel gengur er stefnt á að stækka flotann síðar meir. Það er Króksarinn Pálmar Ingi Gunnarsson sem sér um rekstur Hopp á Sauðárkróki.

Sveitarstjórinn ánægður

„Mér líst rosalega vel á þetta,“ sagði Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri eftir prufuakstur í kjölfar samningsundirskriftar. „Þetta er vistvænn, bíllaus lífsstíll. Eina krafan verður að lagfæra gangstéttir meira í bænum, það er aukin pressa þar,“ útskýrir hann léttur í bragði. „En þetta er mjög þægilegur ferðamáti og mæli með þessu.“

Samningurinn sem undirritaður var milli sveitarfélagsins og Hopp gengur út á það að fyrirtækið fær leyfi til að vera með starfssemi Hopp á Sauðárkróki en það var þegar komið í Varmahlíð. „Hann gengur út á samstarf okkar á milli og afmörkun á svæðum og hvaða öryggisráðstafanir verða fyrir hendi í kringum þetta. En svo þróast þetta bara eftir því hvernig reynslan verður á þessum hjólum. Þau byrja með 20 hjól en ég á alveg von á að fari fjölgandi,“ segir Sigfús Ingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir