Sjúkradeild nánast aflögð – fækka þarf um 35 – 40 stöðugildi

Nái fjárlög óbreytt fram að ganga mun sjúkradeild Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki nánast leggjast af, fækka þarf stöðugildum um 35 – 40 og sérfræðikomur munu heyra sögunni til.

Á samtali við Feyki.is segir Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri, að í krónum talið séu framlög ársins í ár lægri en á fjárlögum ársins 2004. -Breytingin hjá okkur er 0,96% eða lækkun að nafnverði um 4%. Á sama tíma hafa framlög til stofnana á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 46% eða 1,46. Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur hækkað um 43%. Þannig má sjá að misskipting framlaga milli svæða eykst verulega milli ára, segir Hafsteinn.

En hvaða þýðingu hefur niðurskurður af þessari stærðargráðu? -Við þurfum að fækka stöðugildum um 35-40 og mun það koma niður á öllum sviðum stofnunarinnar þó svo að sjúkrasviðið verði verst úti en það er nánast aflagt. Umsvif þess eiga að minnka um 70% í framlögum. Við munum þurfa að samnýta betur húsnæði og loka hluta þess. Ljóst er að starfsemi stofnunarinnar yrði ekki svipur hjá sjón eftir þessar breytingar og gera má ráð fyrir að samfélagið hér yrði fyrir varanlegum skaða vegna þess, segir Hafsteinn.

Hafsteinn segir að reikna megi með að sérfræðikomur muni heyra sögunni til og ekki verði lengur hægt að tala á móti sjúklingum eftir aðgerðir á hinum stóru sjúkrahúsum líkt og verið hefur. -Ég hef velt fyrir mér hver yrði raunverulegur sparnaður ríkisins af þessum aðgerðum og komist að því að hann yrði lítil, segir Hafsteinn að lokum.

Gert er ráð fyrir að funda með starfsfólki stofnunarinnar klukkan 15:00 í dag.

Fleiri fréttir